132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:15]
Hlusta

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan var þetta hugsað sem leiðrétting af hálfu Samfylkingarinnar fyrir þá sem lægstu kjörin hefðu og kæmi sem fyrst til framkvæmda en ekki á þremur árum eins og hér hefur orðið raunin, og gagnaðist hinum lægst launuðu á tímabilinu.

Þar fyrir utan var Samfylkingin með tillögur um að lækka matarskattinn og vildi frekar fara í þær aðgerðir en hátekjuskattslækkunina sem boðuð var fyrir kosningar af hálfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Varðandi lífeyrisgreiðslurnar og að þær séu undanþegnar skattlagningu og að þar með hafi skattleysismörkin hækkað sem því nemur, þá er það aðeins hjá hluta fólks. Það eru auðvitað ýmsir sem greiða ekki í lífeyrissjóði, t.d. ellilífeyrisþegar. Ég tók dæmi af því áðan að um þriðjungur ellilífeyrisþega er með tekjur undir 100 eða 110 þús. kr. og þarf að greiða skatt af þeim. Þeirra skattleysismörk hafa ekkert hækkað vegna þess að iðgjöld í lífeyrissjóði hafi verið undanþegin skattgreiðslu. Svo því sé til haga haldið, virðulegur forseti.

En þetta er eitt af því sem hefur verið notað m.a. í áróðri fjármálaráðuneytisins í umræðunni um skattamál, þ.e. að taka ævinlega inn þessa frestun á skattlagningu lífeyrisiðgjalda sem á sér stað hjá launafólki sem greiðir iðgjöld sín í lífeyrissjóði. En þetta kemur auðvitað aldrei þeim til góða sem eru farnir að taka lífeyri og eru því ekki að greiða í lífeyrissjóð.