132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[14:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram nokkuð almenn umræða um skatta og skattkerfisbreytingar sem hér hafa verið lögfestar á undanförnum árum. Ég get tekið undir margt af því sem hér hefur verið sagt þegar bent hefur verið á áherslur ríkisstjórnarinnar sem felast í að ívilna þeim sem hafa miklar tekjur en þyngja byrðarnar á þeim sem hafa litlar tekjur.

Ég læt mér nægja að vísa í málflutning okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þetta efni, ályktanir og þingmál sem við höfum lagt fram. Ég nefni þar t.d. frumvarp okkar um fjármagnstekjuskatt þar sem er að finna nýtt ákvæði um sérstök skattleysismörk á því sviði sem undanskilur smásparandann en eykur álögur á þá sem hafa úr mjög miklu að spila. Þetta er frumvarp sem liggur fyrir þinginu og felur í sér mikla kjarajöfnun.

Hér erum við hins vegar að ræða um mjög afmarkað mál, þ.e. aukatekjur ríkissjóðs varðandi gjöld vegna ýmissa gagna sem aflað er hjá hinu opinbera og þá sérstaklega gjald vegna umsókna um íslenskan ríkisborgararétt og gjald vegna tilkynningar um íslenskan ríkisborgararétt. Hið fyrra hækkar um 8.650 kr., úr 1.350 kr. í 10.000 kr. Hið seinna hækkar um 3.650 kr., úr 1.350 kr. í 5.000 kr.

Það var haft að orði að þetta væru ekki háar upphæðir en þetta eru miklir peningar fyrir þá sem hafa úr litlu að spila og hafa lítið á milli handanna. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem stöndum sameiginlega að nefndaráliti bendum á að þetta bitnar sérstaklega illa á fólki sem er komið hingað til lands og vinnur í láglaunastörfum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér í andsvari áðan, að íslenskur ríkisborgararéttur væri þess virði að greiða þetta fyrir hann. Nú skal ég taka undir að íslenskur ríkisborgararéttur er mikilvægur og hann er dýrmætur. Hann er mikils virði, bæði huglægt og hlutlægt. Engu að síður viljum við ekki láta meta hann til fjár á þennan hátt. Við viljum ekki setja þröskulda fyrir fólk með álögum eða gjaldtöku þegar um slíkt er að ræða.

Þess vegna mótmælum við þessum gjöldum og höfum jafnframt bent á að ekki liggi fyrir neinar forsendur til að meta hvort þessar upphæðir samsvari þeirri vinnu sem liggur að baki því að veita þessi leyfi. En það er þó ekki á þeirri forsendu sem ég mótmæli þessum hækkunum fyrst og fremst, heldur hinu að ég tel þetta óeðlilega miklar hækkanir. Að öðru leyti vísa ég til sameiginlegs nefndarálits úr minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.