132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

umhverfismat áætlana.

342. mál
[15:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér erum við að afgreiða frá Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um umhverfismat áætlana og ber sannarlega að fagna því að þetta mál skuli nú vera komið á lokastig. Það skiptir auðvitað verulegu máli að þegar um framkvæmdir í okkar viðkvæmu náttúru er að ræða liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna, en það skiptir ekki minna máli að skipulagsáætlanir séu skoðaðar með tilliti til umhverfisáhrifa.

Ég tel að frumvarpið sé þannig úr garði gert að það ætti að tryggja að þeir sem fara með skipulagsvald opni augu sín fyrir umhverfisþættinum fyrr í ferlinu en hefur verið gert hingað til. Ég tel það því til mikilla bóta að nú skuli þetta vera lögfest, að skipulagsáætlanir skuli skoðaðar út frá umhverfisþættinum og út frá mögulegum áhrifum skipulagsáætlananna á umhverfið. Hér má t.d. nefna skógræktaráætlanir, sem eru áætlanir sem hafa verið umdeildar hingað til og eðli málsins samkvæmt sjá það allir í hendi sér að slíkar áætlanir koma til með að breyta umhverfi talsvert hvort sem það er síðan á jákvæðan hátt eða neikvæðan, hvort það er eitthvað sem fólk er sátt við eða ekki, þá liggur það þó fyrir að málin eru skoðuð heildstætt út frá umhverfisþættinum strax í byrjun. Ég fagna því að málið skuli vera komið á lokasprett og nú skuli hilla undir að þetta verði samþykkt, enda hillir líka undir að allt landið verði skipulagsskylt, en árið 2008 á allt Ísland að vera skipulagsskylt og þá skyldi maður ætla að allt skipulag landsins verði alveg í nánustu framtíð skoðað með það í huga að umhverfisþátturinn sé skoðaður í byrjun.

Það eina sem ég mundi vilja gera athugasemd við í málinu er nokkuð sem ég hef svo sem orðað hér í þingsal áður en það lýtur að markmiðssetningu þessa frumvarps þar sem hugtakið sjálfbær þróun er notað. Nú fagna ég því að hugtakið sjálfbær þróun skuli koma fyrir í lagatexta æ oftar og í lögskýringargögnum en ég kalla samt sem áður eftir því — af því að hæstv. umhverfisráðherra situr í salnum og fylgist með umræðunni — að það verði athugað gaumgæfilega í umhverfisráðuneytinu hvort ekki sé orðið tímabært að skilgreina þetta hugtak. Við höfum fengið ábendingar um það í skýrslu frá ríkisendurskoðanda að það sé tímabært og það sé þörf á að hugtakið sé skilgreint. Það er eðlilegt þegar markmið ákveðinna laga, eins og t.d. þessara sem eru nokkuð yfirgripsmikil og tengjast þessu hugtaki, að gerð sé krafa um að það sé vitað nákvæmlega hvað býr að baki þessari notkun orðsins.

Í markmiðssetningunni segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að sjálfbærri þróun og draga úr verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum með umhverfismati tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana …“

Sjálfbær þróun þarf auðvitað að vera skilgreind í lagatexta einhvers staðar þannig að vitað sé um hvað verið er að ræða en ekki sé einungis verið að sveifla eða slá um sig með hugtökum sem geta verið einhvers konar tískuhugtök eða tískubóla en séu innihaldslaus.

Meira hef ég ekki um málið að segja. Ég stend að nefndarálitinu með allri umhverfisnefnd og undir það skrifa allir nefndarmenn án fyrirvara. Ég fagna því enn einu sinni að málið skuli vera komið á lokasprett.