132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

vegabréf.

615. mál
[15:38]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breytingar á lögum um vegabréf.

Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um vegabréf vegna alþjóðlegra krafna um rafræn lífkenni í vegabréfum. Þá er einnig lagt til að ábyrgð á útgáfu almennra vegabréfa færist frá Útlendingastofnun til þjóðskrár en Útlendingastofnun mun áfram sjá um útgáfu vegabréfa fyrir útlendinga og ferðaskilríki fyrir flóttamenn.

Það kom fram á fundum nefndarinnar að öll vegabréf sem gefin hafa verið út á Íslandi eftir 1. júní 1999 eru tölvulesanleg með andlitsmynd en geyma ekki önnur stöðluð rafræn lífkenni sem samkvæmt frumvarpinu eru t.d. augnmynd, fingraför eða önnur líkamleg einkenni sem unnt er að mæla með ákveðinni tækni sem hentar fyrir vélrænan samanburð. Frumvarpinu er ætlað að auka öryggi vegabréfa sem skilríkja og nákvæmni auðkenningar ásamt því að uppfylla alþjóðlegar kröfur og samræmdar kröfur Schengen-ríkjanna.

Nefndin leggur til eina minni háttar breytingu sem varðar gildistöku málsins og með þeirri breytingu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt.