132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins.

669. mál
[15:40]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Með frumvarpinu er lagt til að reglugerð ráðsins, nr. 2679/98/EB, sem tekur til starfsemi innri markaðarins í tengslum við frjálsa vöruflutninga milli landa, verði tekin upp í innlendan rétt. Í reglugerðinni er annars vegar mælt fyrir um skyldur aðildarríkjanna til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir alvarlegar hindranir á frjálsum vöruflutningum milli aðildarríkjanna, svo sem vegna vegatálmana eða eyðileggingar á varningi. Hins vegar að komið verði á fót kerfi upplýsingaskipta á milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar eða eftir atvikum Eftirlitsstofnunar EFTA ef slíkra hindrana verður vart.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að við málið bætist fylgiskjal eins og fram kemur á þskj. 1269.