132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[16:02]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Með frumvarpinu er hætt að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Það er náttúrlega mjög jákvætt mál og við í Frjálslynda flokknum styðjum það heils hugar. En fyrirvari minn beindist að því sem út af stendur. Fólki er enn þá mismunað eftir sem áður á grundvelli kynhneigðar hvað það varðar að prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er ekki heimilt að vígja samkynhneigt fólk.

Þessu vildi ég breyta og flutti breytingartillögu. Ég dró hana til baka, ekki vegna þess að ég hefði skipt um skoðun, alls ekki. Ástæðan fyrir því var sú að þessi breyting, þó svo að hún sé kölluð hænuskref hjá ræðumanni sem flutti ræðu hér á undan, þá er hún það stór að við lá að hún torveldaði það að málið færi í gegnum þingið.

Við getum því ekki talað um þetta sem eitthvert hænuskref. Þetta virðist a.m.k. vera mjög stórt í hugum ýmissa manna, sumra andans manna, að ganga alla leið. Ég er á því að við hefðum átt að gera það. En vegna þess að sú staða var uppi að þessi hindrun, að breytingartillagan gæti orðið til þess að málið færi ekki í gegn, þá dró ég hana til baka. Ég vil að það komi skýrt fram.

Að lokum vil ég ekki eingöngu óska samkynhneigðum til hamingju með þessa réttarbót heldur líka þjóðfélaginu öllu vegna þess að það er akkur þjóðfélagsins að ekki sé mismunun. Við erum líka á því að ryðja eigi öllum hindrunum úr vegi og allri mismunun og einnig þeirri sem ég hætti við að leggja til að yrði breytt að þessu sinni. En ég óttast því miður að fyrst þessi breyting fer ekki í gegn í þessari atrennu þá muni líða nokkur tími þar til að samkynhneigðir fái öll sömu réttindi og aðrir borgarar landsins.