132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[16:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil að það komi fram að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég held að það hafi komið fram í ræðu minni. Það er þetta sem ég leyfði mér að kalla hænufet sem upp á vantar. Ég kallaði það hænufet vegna þess að ég held að trúfélögin þurfi einungis að svipta hulunni frá augum sínum. Það er ekki mikið mál að taka huluna og svipta henni af.

Í þessu stóra skrefi sem við erum að taka felli ég mig við það að trúfélögunum skuli vera það í sjálfsvald sett á þessu stigi málsins að svipta hulunni sjálf frá augum sínum. Ég felli mig sem sagt við að það skyldi hafa orðið málamiðlun og lending í málinu núna að Alþingi gerði það ekki með valdboði í lögum.

Ég hefði auðvitað kosið að allir hópar landsins, allir sem komið hafa að umfjöllun um þetta mál hefðu getað verið sama sinnis og við hv. þm. Sigurjón Þórðarson. En það var nú ekki svo. Þá tel ég og vil að það komi skýrt fram að þessi lending hafi verið sú eina sem við í raun gátum fengið í þetta mál og svo sé það verk trúfélaganna í samfélaginu, meðbræðra okkar sem þar starfa, að svipta hulunni frá augum sínum og átta sig á að við verðum ekki dæmd á grundvelli kynhneigðar okkar. Það er ósanngjarnt. Það er óréttlátt og það skyldi enginn gera að dæma annan mann á grundvelli kynhneigðar.