132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[16:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir þann fögnuð sem fram hefur komið í ræðum fyrri þingmanna, hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur og fleiri þeirra sem hafa staðið hér vel að verki að flestu leyti. Ég tek líka undir það sem fram kom áðan að hið eðlilega lokaskref í þessum efnum, ég held að það hafi verið hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, sé að afnema með öllu þann lagalega og orðafarslega skilnað sem er á milli fólks með mismunandi kynhneigð á þessu sviði. Einhvern tímann kemur að því að við veljum okkur eitthvert orð, hjúskap t.d., um samband tveggja einstaklinga sem um er að ræða og gerum engan mun á því hvaða blanda það er af karlkyni og kvenkyni sem þar kemur nærri. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt skref sem verið er að stíga nú. En ég verð hins vegar að leyfa mér að fara nokkrum orðum um það sem stendur út af og hefur mest verið deilt um í vetur.

Það almannavald sem kveður á um mannréttindi í landinu gerir það í umboði þjóðarinnar. Þegar það hefur komist að ákveðinni niðurstöðu, eins og við erum nú að gera um mannréttindi, verður ekki lengi við það unað að félagsskapur af neinu tagi standi utan við það almenna samkomulag sem slík samþykkt inniheldur. Þetta á í þessu tilviki við um trúfélögin, söfnuðina í landinu, gagnvart þeirri nýju stöðu sem með þessu frumvarpi samþykktu er uppi í landinu, þeirri skorinorðu yfirlýsingu okkar að réttarstaða skuli vera jöfn, allir skulu vera jafnir fyrir lögunum óháð því hvernig þeir kjósa að haga kynlífi sínu á þá vegu sem við erum hér að tala um eða velja sér lífsförunaut.

Nú er ég ekki þar með að segja að ekki eigi að gefa umþóttunartíma ýmsum fornfrægum söfnuðum. Hér er t.d. fylgisveit patríarkans í Moskvu og mér dettur ekki í hug að hún muni á einum degi geta fylgt okkur eftir í þessu. Kannski þarf til þess nokkur ár, kannski einhverja áratugi. En að lokum kemur að því að þessi félög verða að haga sér eftir þeim lögum sem í landinu gilda.

Samanburður kann að þykja ósmekklegur en er þó við hæfi. Við Íslendingar mundum ekki til lengdar þola þann félagsskap sem gerði upp á milli fólks eftir litarhætti. Við mundum ekki þola að gert væri upp á milli fólks eftir því hvort það er fatlað eða ekki. Við mundum ekki þola neinum að gera upp á milli fólks eftir því hvaða efni það hefur. Þó hefur það verið svo í lögum okkar að fátækir hafa verið settir skör lægra og það eftir að þetta þing tók til starfa. Það var svo fram á fjórða áratuginn að þeir sem höfðu þegið af sveit höfðu ekki kosningarétt í kosningum. Það var eitt af því sem mótmælt var í fyrstu kröfugöngum verkalýðsfélaganna í Reykjavík og víðar um landið að sú svívirða skyldi viðhaldast og var sem betur fer afnumin að mig minnir í stjórn hinna vinnandi stétta snemma á fjórða áratugnum. Með sama hætti verður það ekki þolað í framtíðinni að félagsskap, þótt göfugur sé, líðist að gera upp á milli fólks eftir því hvernig það velur sér lífsförunaut eða hagar kynlífi sínu í þessu sambandi.

Það er staðreynd að einn af þessum söfnuðum, íslenska þjóðkirkjan svokölluð, hefur í raun komið í veg fyrir þá breytingu sem Guðrún Ögmundsdóttir beitti sér fyrir í upphafi þessarar umræðu og hv. þm. Sigurjón Þórðarson vissulega tók upp með breytingartillögu sinni og menn hafa víða haft áhuga á að gerð verði, og var nú ekki róttækari en það að til stóð að gefa embættismönnum safnaðanna heimild, ekki að skylda þá, ekki að taka upp valdboð, heldur gefa þeim heimild til að vígja samkynhneigt fólk eftir ritúali sínu.

Íslenska þjóðkirkjan hefur með þessu ekki einungis stöðvað málið, að minnsta kosti að sinni, gagnvart sjálfri sér heldur líka gagnvart öðrum söfnuðum og þar með gripið nokkuð hastarlega inn í starfsemi sem henni kemur ekki við. Þó hér sé stund fagnaðar verður vissulega að draga þessa mynd upp og þeir þingmenn sem bera ábyrgð á þessu og hafa haft ég segi nánast í hótunum við okkur fylgismenn frelsis í þessu efni verða auðvitað að gangast við ábyrgð sinni. Það að þetta er þjóðkirkjan er mjög sérkennilegt. Þar hljóta menn að horfa í spegilinn og skoða nokkuð hvernig þetta kemur til vegna þess að ef einhver trúarsöfnuður ætti að vera skyldugur til að fylgja hinni almennu mannréttindaþróun í samfélaginu, þá er það þjóðkirkjan vegna þeirrar stjórnarskrárbundnu stöðu sinnar að vera þjóðkirkja. En hún hefur ekki gert það, heldur beitt áhrifum sínum til að þetta réttindamál, þetta hænufet sem kallað er og ég hygg að skipti trúað fólk meðal samkynhneigðra miklu máli þótt hænufet sé kallað, hefur sem sé ekki getað fylgt með í þessum umbótum.

Ég tel það vera alvarlegt umhugsunarefni og ég vona að þjóðkirkjan komist að hinni réttu niðurstöðu í þessu efni þegar frá líður og sérstaklega að hún þröngvi ekki kostum annarra safnaða í samfélaginu með háttalagi sínu.

Ég vil segja að lokum í þessu máli sem við þurfum að ræða áfram innan safnaðanna, á þinginu og í samfélaginu almennt, að auðvitað væri út úr þessu ein leið. Hana hefur þjóðkirkjan að vísu forðast. Hún er að sjálfsögðu sú að afnema þá skipan að það séu sérstakir embættismenn safnaðanna sem af ríkisins hálfu hafa heimild til að stofna til þessa veraldlega sambands, þessa veraldlega félags sem hjónabandið er fyrir velflestum mönnum, þar á meðal fyrir Marteini Lúter sem var upphafsmaður þeirrar trúardeildar sem íslenska þjóðkirkjan telur sig vera hluta af.

Það væri miklu hægara, og ég legg það til sem lausn á þessum vanda, að það væri ósköp einfaldlega hin opinbera athöfn embættismanna almannavaldsins sem gilti um hjónaband eða hjúskap eða hvað menn vilja kalla það, af öllu tagi. Síðan gætu trúfélögin lagt sína blessun yfir það hvert og eitt með sínu lagi. Ég tel að það væri hægari leið fyrir trúfélögin til að geta sætt sig við þetta, þau sem eru andstæð því. Og eðlilegri skipan mála fyrir það grundvallarsamband fólks sem um er að ræða sem er eins og ég segi í grunninn veraldlegt þó það sé auðvitað göfugt gagnvart guði og mönnum.