132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

flutningur þjóðskrár og almannaskráningar frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.

567. mál
[16:35]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem leiða af flutningi þjóðskrár og almannaskráningar frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins. Þá eru lagðar til breytingar á lögum um tilkynningar aðsetursskipta sem leiða af nýjum norrænum samningi um almannaskráningu frá 1. nóvember 2004. Samkvæmt samningnum á skráning á flutningi fólks milli Norðurlandanna að byggjast á rafrænum flutningstilkynningum milli þjóðskrár ríkjanna í stað samnorrænna flutningsvottorða.

Nefndin telur mikilvægt, með vísan til nefndarálits um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, að unnið verði að því í dómsmálaráðuneyti með Persónuvernd að endurskoða þau ákvæði laga sem skráning persónuupplýsinga í þjóðskrá byggist á.

Mér sýnist að í nefndaráliti vanti orðið „mikilvægt“ til þess að samhengi hlutanna sé rétt.

Nefndin leggur til samhljóða að frumvarpið verði samþykkt.