132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

brottfall laga um Flugskóla Íslands hf.

480. mál
[17:17]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um brottfall laga nr. 17/1997, um Flugskóla Íslands hf.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti.

Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, Flugfélaginu Geirfugli ehf., rannsóknarnefnd flugslysa, Flugskóla Reykjavíkur og Flugskóla Helga Jónssonar.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að fella brott lög nr. 17/1997, um Flugskóla Íslands hf. Þetta er gert með hliðsjón af efni laganna og að ríkið hefur selt allt hlutafé sitt í skólanum. Skilvirkt eftirlit er af hálfu Flugmálastjórnar Íslands með gæðum skólastarfsins og starfsemi skólans og er það talinn fullnægjandi rammi um þessa starfsemi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur áliti þessu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Guðjón Hjörleifsson framsögumaður, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristján L. Möller, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, með fyrirvara, og Magnús Stefánsson.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.