132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

siglingalög.

376. mál
[17:39]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Sigurberg Björnsson og Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneytinu og Steinar Adolfsson og Hjálmar V. Björgvinsson frá ríkislögreglustjóra.

Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá Sýslumannafélagi Íslands, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi skipstjórnarmanna, Sjómannasambandi Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu, Hafnasambandi sveitarfélaga, Landssambandi smábátaeigenda, Vélstjórafélagi Íslands, ríkislögreglustjóra, tollstjóranum í Reykjavík, Landhelgisgæslu Íslands, Kjölbátasambandi Íslands og Siglingafélagi Reykjavíkur, og ríkissaksóknara.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á siglingalögum sem varða öryggi á sjó og viðurlög vegna hættulegrar hegðunar þeirra sem stjórna skipi eða reyna að stjórna skipi og fjallað er um í greininni. Með breytingunni er lagt til að ákvæði um áfengis- og fíkniefnanotkun verði gerð skýrari og markvissari. Miðað verður við 0,5‰ vínandamagn í blóði þeirra sem ákvæðið varðar eða að vínandamagn í lofti sem viðkomandi andar frá sér nemi 0,25 milligrömmum í lítra lofts eða meira. Engin slík viðmið eru í gildandi lögum. Einnig er lagt til að greinarnar taki til fleiri en eingöngu skipstjóra eins og núgildandi ákvæði gera. Þá er í frumvarpinu byggt undir heimildir lögreglu og annarra sem fara með löggæsluvald til að taka á málum af því tagi sem hér um ræðir. Nefndin vekur athygli á villandi orðalagi í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þegar talað er um viðurlög vegna hættulegrar hegðunar skipstjóra hlýtur að vera átt við viðurlög vegna hættulegrar hegðunar þeirra sem stjórna skipi eða reyna að stjórna skipi.

Nefndin leggur til breytingu á 1. gr. frumvarpsins sem felur fyrst og fremst í sér orðalagsbreytingar í framhaldi af athugasemdum sem fram komu við frumvarpið frá ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara. M.a. er lagt til að fellt verði út hugtakið „ofskynjunarefni“ í 2. mgr. og í staðinn stuðst við orðin „ávana- og fíkniefni“. Jafnframt er lagt til að sett verði inn ítarlegra ákvæði í 3. mgr. þar sem skilgreind eru „núllmörk“ varðandi þau tilvik er ávana- og fíkniefni mælast í blóði eða þvagi þeirra sem nánar greinir í 2. mgr. Mælist ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim í blóði eða þvagi viðkomandi telst hann óhæfur til þeirra starfa sem um ræðir í 2. mgr. Þá er lagt til að bætt verði við heimildum til sýnatöku, þ.e. munnvatns- og svitasýna, til samræmis við þróun og nýja tækni til sýnatöku í málum af því tagi sem hér um ræðir. Einnig er lagt til að heimildir þeirra sem fara með löggæsluvald til sýnatöku verði takmarkaðar að því leyti að gert er ráð fyrir að starfsmenn tollstjóra þurfi að kalla til lögreglu við sýnatöku en Landhelgisgæsla Íslands verði með sambærilegar heimildir og lögregla í slíkum tilvikum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu. Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Guðjón Hjörleifsson framsögumaður, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristján L. Möller, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðjón A. Kristjánsson og Magnús Stefánsson.

Virðulegi forseti. Ég mæli einnig fyrir breytingartillögu frá samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Við 1. gr. Greinin orðist svo:

238. gr. laganna orðast svo:

Hafi skipstjóri, stýrimaður eða vélstjóri orðið valdur að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi sínu varðar það sektum eða fangelsi allt að fjórum árum. Sömu refsingu skal sá hljóta sem reynir að stjórna skipi, stjórnar skipaferðum eða veitir öryggisþjónustu vegna skipaferða og verður valdur að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi.

Enginn má stjórna eða reyna að stjórna skipi, stjórna skipaferðum eða veita öryggisþjónustu vegna skipaferða, ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- og fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna, vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Brot gegn ákvæði þessu varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Nú er vínandamagn í blóði skipverja eða þeirra sem nánar greinir í 2. mgr. yfir 0,5‰ eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,25 milligrömmum í lítra lofts eða meira og telst hann þá undir áhrifum áfengis og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 2. mgr. Það leysir viðkomandi ekki undan sök þótt hann ætli vínandamagn í blóði sínu minna en hér um ræðir. Nú hefur skipverji eða sá annar sem nánar greinir í 2. mgr. neytt áfengis við eða fyrir þann starfa sem nánar greinir í 2. mgr. þannig að vínandamagn í blóði hækkar eftir að skipstjórn lauk, og skal þá litið svo á sem hið aukna vínandamagn hafi verið í blóði hans við starfann. Mælist ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim í blóði eða þvagi skipverja eða þess annars sem nánar greinir í 2. mgr. telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 2. mgr.

Skipverja, þeim sem stjórnar skipaferðum eða veitir öryggisþjónustu vegna skipaferða er skylt, að kröfu lögreglu eða Landhelgisgæslu Íslands, að gangast undir rannsókn á öndunar-, munnvatns- eða svitasýni, blóð- eða þvagrannsókn með þeim hætti sem lögregla ákveður þegar ástæða er til að ætla að viðkomandi hafi brotið gegn ákvæðum þessarar greinar. Honum er jafnframt skylt að hlíta kröfu sömu aðila um að láta flytja sig til læknis til rannsóknar, þar á meðal til blóð- og þvagrannsóknar, og að hlíta nauðsynlegri meðferð læknis.

Skip merkir í þessari grein sérhvert fljótandi far, óháð lengd eða knúningsmáta.

Virðulegi forseti. Ég legg til að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.