132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:21]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé rétt að skoða þann möguleika að fela dómstólum þetta vald í samhengi við það hvernig málin rata til dómstólanna. Ég held að það sé miklu farsælla fyrir okkur að einbeita okkur að sáttameðferð í þessum málum, einbeita okkur að því að þróa úrræði sem tryggja að líkurnar aukist á því að sátt náist í þessum málum, heldur en að leggja áherslu á, á þessum tímapunkti á meðan sáttameðferðarúrræðin eru nánast í molum hér á landi að mínu mati, heimild fyrir dómstólana til að dæma sameiginlega forsjá. Ég held að ég hafi gert ágætlega grein fyrir því í ræðu minni að það er kannski einkum tvennt sem ég hef rekið mig á í störfum nefndarinnar sem gefur mér ástæðu til að setja fyrirvara við þessa hugmynd. Í fyrsta lagi að þar sem þetta úrræði hefur verið lögfest hafa menn verið að hopa frá því, menn hafa verið að þrengja heimildir dómstólanna til að beita úrræðinu, draga úr því og gera heimildina þrengri fyrir dómstólana. Í öðru lagi finnst mér ákveðin þversögn fólgin í því að dómstóll eigi að geta skipað einhverjum að vera sammála um eitthvað þegar þeir sjálfir lýsa því yfir að þeir séu ósammála. Við skulum hafa í huga að í sameiginlegri forsjá felst að geta orðið sammála um mikilvægustu málefni barnsins, það sem mikilvægast er. Og ef það er ekki einmitt um þau atriði sem foreldrar deila þegar þeir láta reyna á réttinn til að fá forræði yfir barni til sín þá veit ég ekki hvað það er.