132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:28]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við erum að tala um ákaflega flókinn veruleika og erfið mál sem oft er mjög vandasamt að ná niðurstöðu í þar sem allir eru sáttir. En útgangspunkturinn í þessu máli er hvað er barninu fyrir bestu og eftir því leiðarljósi eru þessi lög sett og þetta frumvarp byggt. Ég er alls ekki sáttur við það, rétt eins og flutningsmaður breytingartillögunnar sem talaði hér á undan, að dómstólaleiðin sé þar ekki lögð til. Ég tel að dómstólaleiðin þar sem dómstólar hafa heimild til að dæma báðum foreldrum forsjá verði að vera til staðar. Ég held að það sé eðlilegt og mikilvægt úrræði fyrir dómstólana. Ég held að það sé nauðsynlegt að þessi mál geti endað með þeim hætti fyrir dómstólum rétt eins og önnur.

Ég tek ekki undir það að verið sé að dæma sátt upp á þá sem ósáttir eru, af því að málið er ekki lagt þannig upp. Það er hins vegar verið að gera það sem er barninu fyrir bestu og við verðum að treysta dómstólunum fyrir því, burt séð frá stundarágreiningi foreldra um forsjá á þeim tíma og sérstaklega í þeim tilfellum þar sem vafi getur leikið á um að eðlilega sé gengið fram af því foreldri sem vill koma í veg fyrir að um sameiginlega forsjá sé að ræða. Ég vil að þessi leið sé lögð til. Ég vil að hægt sé að fara dómstólaleiðina og að hún sé heimiluð rétt eins og á flestum öðrum Norðurlöndum eins og hér hefur komið fram. Ég held að það sé nauðsynlegur þáttur í þessum úrræðum að dómstólaleiðin sé einnig til staðar. Því vil ég hnykkja sérstaklega á því við hv. formann nefndarinnar að ég tel að málið hefði mátt liggja lengur og bíða lengur ef það hefði mátt verða til þess að dómstólaleiðin hefði getað verið lögð til líka.