132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:32]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé einmitt kjarni málsins. Ég held að það sé nauðsynlegt að dómari geti skikkað foreldra til að fara sameiginlega með forsjá barns meti dómari það svo að þær aðstæður séu fyrir hendi. Við verðum að treysta dómstólunum til þess að dæma ekki óhæfu foreldri sameiginlega forsjá. Að sjálfsögðu verðum við að treysta dómurunum og dómstólunum til þess og það er útgangspunktur í málinu.

Mín grundvallarafstaða er sú að það geti í sumum tilfellum verið hagsmunum barnsins fyrir bestu að dómstólar geti dæmt sameiginlega forsjá til beggja foreldra gegn vilja annars foreldrisins. Ég er sannfærður um að það geti, meti dómari það svo, verið barninu fyrir bestu. Það geta komið upp þau tilvik að foreldri vilji halda sameiginlegri forsjá frá af annarlegum ástæðum. Það er einfalt mál. Fyrir því geta verið hinar litríkustu og margvíslegustu ástæður en ég tel eftir að hafa ígrundað málið — og ég tek undir að vel var unnið í nefndinni og farið vel yfir þetta mál og mikill fjöldi manna og kvenna og fólks kallaður til. Fram komu ólík sjónarmið og menn notuðu stór orð á báða bóga. Það er mikill tilfinningahiti í þessu máli á báða bóga. Það er skiljanlegt af því að þetta eru flókin, viðkvæm og erfið mál. En eftir að hafa farið í gegnum málið í nefndinni, eftir að hafa hlustað á þau sjónarmið sem uppi eru er ég sannfærður um þetta. Ekki eru allir í öllum flokkum á einni línu í þessu máli. Ég tek það fram að þetta er þverpólitískt mál að þessu leyti en ég mun styðja fram komna breytingartillögu, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Dómari kveður á um forsjá barns eftir því sem barni er fyrir bestu.“

Ég mun styðja þessa breytingartillögu við frumvarpið og vona að hún nái fram að ganga við atkvæðagreiðslu um þetta mál í þinginu síðar um helgina.