132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:35]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef skilning á þeim tilvikum sem nefnd eru í dæmaskyni um atvik þar sem þetta úrræði gæti átt rétt á sér. Menn tína til tilvik eins og t.d. það að annað foreldri reyni að hindra forsjá hins af annarlegum ástæðum sem geta átt sér margs konar undirrót.

Getur ekki verið að þegar annað foreldri er með einhver annarleg sjónarmið, er með einhverjar skrýtnar skoðanir eða hefur einhverjar tilfinningar sem það hefur ekki gert upp við sig sem leiða til þess að það treystir sér ekki til að fara sameiginlega með forsjá með hinu — ef þær aðstæður eiga að leiða til þess að sameiginleg forsjá verði dæmd sé þá einmitt verið að horfa til hagsmuna þess foreldris sem beitt er hinu meinta misrétti frekar en til hagsmuna barnsins. Er eitthvað unnið við það að dæma foreldrum sameiginlega forsjá við slíkar aðstæður þar sem uppi er ágreiningur, hvort sem hann á rétt á sér eða ekki? Og ég leyfi mér að segja að við verðum að áskilja einstaklingunum í þessu landi rétt til að hafa hvaða ástæðu sem er til að vilja ekki tala við annað fólk. Þótt skyldur foreldra séu um margt mjög sérstakar vegna umgengni við börnin leyfi ég mér að efast um að það sé í öllum tilvikum rétt að halda því fram að hagsmunir barnsins séu með þessu best tryggðir.

Síðan er það hitt að í þessum málum verður almennt, og ég held að við höfum gert mjög vel grein fyrir því í nefndarálitinu, að skoða hlutina út frá hagsmunum barnsins. Við sem stöndum að nefndarálitinu án fyrirvara teljum að umhverfið eins og það er núna sé almennt miðað við hagsmuni barnsins.