132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[15:22]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti heilbrigðis- og trygginganefndar á þskj. 1260, 388. mál, um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Í upphafi nefndarálitsins eru samkvæmt hefð og venju greindir gestir sem komu á fund nefndarinnar vegna málsins, sem voru fjölmargir og bæði fagfólk og áhugafólk um tóbaksvarnir, og eins eru greindir í nefndaráliti þeir aðilar sem sendu nefndinni umsögn sína um þetta mál.

Meginmarkmið frumvarpsins er að auka vinnuvernd starfsmanna á veitinga- og skemmtistöðum með því að afnumið er undanþáguákvæði gildandi laga um að leyfa megi reykingar þar á afmörkuðum svæðum. Er lagt til að reykingar í þjónusturými á veitinga- og skemmtistöðum verði bannaðar með öllu frá og með 1. júní 2007, sem þýðir að það er um ársaðlögun að þessu banni. Með frumvarpinu er lögð áhersla á að veita þeim sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum sömu vinnuvernd og öðrum og að standa vörð um rétt þessara aðila eins og annarra, þann rétt sem er markaður í upphafsákvæðum tóbaksvarnalaganna að maður þurfi ekki að anda að sér lofti menguðu tóbaksreyk af annarra völdum. Leggur nefndin einmitt áherslu á þetta í afstöðu sinni til þessa máls og jafnframt á forvarnagildi þess að fækka stöðum sem heimilt er að reykja á.

Eitt af því sem var mikið rætt á fundum nefndarinnar svo og við 1. umr. málsins hér í þingsal var skaðsemi beinna reykinga, en umræðan um skaðsemi tóbaksreykinga hefur síðustu árin fyrst og fremst snúist um skaðsemi óbeinna reykinga. Í stuttu máli má segja, og það kom skýrlega fram í greinargerðinni sem fylgdi frumvarpinu frá ráðuneytinu, að alls staðar í heiminum er skaðsemi óbeinna reykinga ótvírætt viðurkennd. Í nefndaráliti er að finna tiltekna tölfræði og upplýsingar um hærri iðgjöld í líftryggingum og sjúkratryggingum hjá þeim sem reykja.

Mér finnst vert, frú forseti, í þessari umræðu að hafa orð á því að við 1. umr. málsins var vakið máls á starfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar varðandi óbeinar reykingar og sérstaklega var rætt um tiltekna rannsókn sem gerð var af hennar hálfu. Því var meðal annars haldið fram að sú rannsókn hefði ekki leitt í ljós vísbendingar um tengsl óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Fréttir af þessari umræðu bárust m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Stofnunin brást við umræðum hér í þingsal og sendi nefndinni bréf fyrir atbeina heilbrigðisráðuneytisins þar sem þessum staðhæfingum er öllum andmælt og áréttað að umrædd rannsókn hafi einmitt sýnt fram á aukna hættu á lungnakrabbameini af völdum óbeinna reykinga. Í bréfinu sagði jafnframt að í kjölfar rannsóknarinnar hefði tóbaksiðnaðurinn hafið mikla herferð í fjölmiðlum þar sem rannsóknarniðurstöðum var andmælt sem vísindalegum grunni að lagasetningu til verndar þeim sem ekki reykja. Í þessu bréfi var jafnframt áréttað að jafnvel óbeinar reykingar í meðallagi gætu valdið lungnakrabbameini hjá þeim sem ekki reykja. Þetta var, frú forseti, um 1. umr. og afstöðu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og framlag hennar til gagna sem lágu fyrir nefndinni við meðferð þessa máls.

Á fundi nefndarinnar var líka rætt um að fara leið sem frumvarpið gerir ekki ráð fyrir, fara svokallaða sænska leið í þessum málum og heimila að á veitinga- og skemmtistöðum séu sérstök reykherbergi sem séu þannig um búin að tryggt sé að hvorki gestir né starfsmenn verði fyrir óbeinum reykingum. Niðurstaða heilbrigðisnefndar var hins vegar sú að líka yrði að huga að vinnuverndarsjónarmiðum gagnvart þeim starfsmönnum sem annast þrif í slíkum herbergjum. Það vó vissulega þungt í afstöðu nefndarinnar að Samtök ferðaþjónustunnar, sem eru samtök þeirra sem reka veitinga-, skemmti- og gististaði, studdu þá reglu sem frumvarpið gerir ráð fyrir og heimilar ekki sérstök reykherbergi. Samtökin voru engan veginn hlynnt því að heimila sérstök reykherbergi af þessu tagi og vísuðu að hluta til þess að það mundi skekkja samkeppnisstöðu þeirra aðila sem rækju þess konar staði.

Í þessu samhengi er rétt að vísa til þess að ekki er svo ýkja langt síðan aðalfundur þessara samtaka, sem var í apríl 2005, — það er nú ár síðan — samþykkti að ganga til viðræðna við stjórnvöld um reykleysi skemmti- og veitingastaða frá 1. júní 2007. Það má því segja að frumvarpið sem hér er lagt fram sé í fullu samræmi við vilja og í þökk þessara samtaka, bæði efnislega og hvað varðar gildistíma.

Á fundum nefndarinnar var töluvert rætt um skilgreiningu á þjónusturými og um sérstakt ákvæði frumvarpsins um þjónustusvæði utan húss. Nefndin var á því að ákvæðið eins og það er orðað í frumvarpinu væri ekki nægjanlega skýrt vegna þess að erfitt væri að ráða af því hvort það svæði sem menn vildu að reykingar væru takmarkaðar við væri á einhvern hátt bundið við að verið væri að veita þjónustu þar eða ekki — það væri þá einungis einhvers konar afdrep þar sem gilda ættu hömlur við reykingum, t.d. einhvers konar tjald eða gámur eins og dæmi munu vera um að hafi verið komið upp fyrir utan skemmti- og veitingastaði til þess að skapa afdrep fyrir þá sem ekki fá að reykja innan dyra en vilja reykja utan dyra.

Nefndin lagði til breytingu á ákvæði 2. gr. frumvarpsins þar sem leitast var við að leggja til skýrara orðalag hvað varðar svæðið utan húss og lagði til að bannið næði einnig til tilsvarandi svæða utan húss, og þá var átt við svæði sem tengjast þjónustu við almenning, enda séu þau — bannið byggist á því — „ekki nægilega opin til að tryggja viðunandi loftstreymi“ að og frá þeim. Þetta fannst nefndinni skynsamlegri framsetning en eins og hún er í frumvarpinu eins og það liggur fyrir þar sem reynt er að útskýra hvað væri nægjanlegt loftstreymi og hvað ekki.

Í breytingartillögu nefndarinnar felast frekari leiðbeiningar um hvers konar skjól eða aðbúnaður sé heimill til að verja reykingamenn fyrir veðri og vindum og við leggjum til að sett verði í reglugerð, svo sem ákvæði í reglugerð um hámarkslokun reyksvæða t.d. með þaki eða skjólveggjum.

Svo áréttar nefndin að orðið „viðunandi“ í breytingartillögunni beri í þessu sambandi að túlka með hliðsjón af 1. gr. laganna um tóbaksvarnir, sbr. III. kafla tóbaksvarnalaganna almennt og meginreglu tóbaksvarnalaga um réttinn til reykleysis.

Þetta er það sem frumvarpið fjallar um, frú forseti. En í tilefni tveggja dóma Hæstaréttar, sem lutu annars vegar að sýnileikabanninu, sem sett var inn í lögin þegar þeim var breytt 2001, og hins vegar að auglýsingabanninu, skoðaði nefndin sérstaklega þessa tvo dóma Hæstaréttar. Það leiddi til breytingartillögu sem nefndin leggur fram og fjallar nefndarálitið að hluta líka um þá breytingartillögu. Í stuttu máli má segja að þessir dómar hafi gengið út á ágreining á milli tóbaksframleiðenda og íslenska ríkisins um annars vegar auglýsingabannið og hins vegar sýnileikabannið. Niðurstaða Hæstaréttar snerist um réttmæti þessara breytinga og í forsendum Hæstaréttar er í málunum fallist á að viss hvatning til að kaupa tóbak geti verið fólgin í því að stilla vörum upp á sölustað. Hæstiréttur féllst heldur ekki á þá kröfu tóbaksframleiðenda að almennt væri heimilt að hafa tóbak eða vörumerki tóbaks sýnileg viðskiptavinum á útsölustöðum og taldi það samrýmast ákvæðum 75. og 73. gr. stjórnarskrárinnar að setja skorður við því að heilsuspillandi vörur á borð við tóbak væru í augsýn annarra viðskiptavina en þeirra sem vildu kaupa eða skoða þær vörur. Hæstiréttur taldi hins vegar að með lagasetningunni 2001 hefði ekki verið gerður greinarmunur á sérverslunum með tóbak og öðrum verslunum sem selja tóbak meðal annars varnings og með tilliti til sýnileikabannsins hefði löggjafinn farið út fyrir þau mörk sem fyrrgreind ákvæði stjórnarskrárinnar setja. En að öðru leyti fóru þessi mál bæði tvö íslenska ríkinu í vil.

Vegna þessara dóma og niðurstöðu Hæstaréttar leggur nefndin til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu þess efnis að undantekning verði gerð frá banni 6. mgr. 7. gr. laganna, sem geymir sýnileikabannið, þegar í hlut eiga sérverslanir með tóbak. Jafnframt skilgreinir nefndin sérverslun með tóbak sem verslun sem einkum hefur tóbak og reykfæri á boðstólum. Síðan útfærir nefndin nánar í reglugerðarheimild heimildir ráðherra hvað varðar leyfi til að reka sérverslanir, bæði þá að setja skilyrði fyrir leyfi til að reka sérverslanir og um umbúnað sérverslananna, hvernig þær skuli auðkenndar og hvernig koma megi tóbaki og vörumerkjum tóbaks fyrir á útsölustöðum og í sérverslunum. Þessi reglugerðarheimild ráðherra er einkum veitt til þess að unnt sé að kveða nánar á um hugsanleg takmarkatilvik að þessu leyti.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þingmenn Guðjón Ólafur Jónsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Gunnar Örlygsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal skrifar undir álitið með fyrirvara sem hann mun gera grein fyrir, vænti ég, við þessa umræðu.

Aðrir sem rita undir þetta álit eru auk framsögumanns hv. þingmenn Ásta Möller, Ágúst Ólafur Ágústsson, Pétur H. Blöndal, með fyrirvara, Ásta R. Jóhannesdóttir og Þuríður Backman.

Að endingu, frú forseti, uppgötvaðist það þegar þessi umræða var að hefjast að meðal umsagnaraðila hefur láðst að tilgreina umsögn frá félagsmálanefnd Alþingis og hana vantar sem fylgiskjal með þessu gagni. Segja má að sú niðurstaða sem félagsmálanefnd kemst að styðji það að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt og þær umræður sem þar hafa verið eru í fullum takti og í samræmi við álit meiri hluta allsherjarnefndar.