132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[15:39]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga þarf ekki önnur rök fyrir leið þeirri sem ég tala fyrir, mildari leið þar sem hagsmunir frjálslyndis og frelsis einstaklingsins til orðs og athafna er í fyrirrúmi, en heilbrigða skynsemi.

Þegar fyrir liggur valkostur um tvær leiðir, aðra mildari en hina, til að ná fram sömu markmiðum, þá á ekki að skipta öllu máli hvernig þingnefndin er samsett. Það er hægt að fara þessa leið og fyrir þeirri leið töluðum við afdráttarlaust, nokkrir þingmenn úr a.m.k. tveimur stjórnmálaflokkum, öðrum í stjórn en hinum í stjórnarandstöðu, í 1. umr. um málið. Við töluðum afdráttarlaust fyrir því og óskuðum eftir að sú leið yrði skoðuð.

Ég er sannfærður um að sú leið er farsælli og heppilegri en þessi grófa pólitíska íhlutun í forræði yfir sjálfsákvörðunarrétti hvers einstaklings eins og hér er lögð til. Þetta er óásættanleg leið og hefði að sjálfsögðu átt að fara hina leiðina.

Það þarf ekki að rökræða skaðsemi reykinga. Það eru margir áratugir, a.m.k. tel ég svo vera, síðan það lá fyrir að reykingar eru bráðdrepandi og mjög óhollar, eins og áfengisneysla er bráðdrepandi og mjög óholl og veldur gríðarlegu tjóni í íslensku samfélagi á hverju einasta ári. Hægt væri að telja upp fjöldann allan af hlutum sem samt sem áður er einhvers konar samfélagssátt um að leyfa.

Af hverju ekki að ganga alla leið og banna reykingar alveg í staðinn fyrir að vera að þessu hálfkáki sem hér er lagt til, sem er algjörlega óásættanlegt að mínu mati? Ég kalla eftir því að hv. heilbrigðisnefnd skoði mildari leiðina, ég gerði það við 1. umr., í stað þess að hlutast svo gróflega til um líf fullorðins fólks, að það megi ekki koma saman á stað þar sem fullorðnir einstaklingar kjósa að vera saman og reykja vindla, t.d. á opinberum stað. Þetta er fráleit nálgun.