132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[15:41]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það reynir á það í atkvæðagreiðslu að skoðanir eru skiptar í öllum flokkum á þingi og í öllum þingflokkum. Enginn þingflokkur styður eindregið eða er mótfallinn þessari reglu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þetta er ekki flokkspólitískt mál

En í tilefni af ræðu hv. þingmanns vil ég leggja áherslu á tvennt. Í fyrsta lagi ákvað Alþingi 2001, þegar lögunum var breytt, að meginregla reykingavarnalaganna væri rétturinn til reykleysis. Það er meginreglan.

Í öðru lagi er meginregla og meginmarkmið þessa frumvarps vinnuvernd, vinnuvernd starfsmanna á veitinga- og skemmtistöðum, sem voru undanþegnir þeirri vernd eins og lögin hafa verið til þessa. Talið er að sýnt hafi verið fram á að starfsmaður sem þrífur þess konar húsakynni, gám, tjald eða eitthvað annað þar sem reykingar eru leyfðar, geti orðið fyrir heilsuspillandi áhrifum. Ég held að ekki sé hægt að halda því fram að það séu einskis verðir hagsmunir miðað við þá hagsmuni sem hv. þingmaður hélt á lofti og hafði yfir mörg og stór orð um forsjárhyggju.

Vinnuverndarsjónarmið annars vegar og rétturinn til reykleysis eru það tvennt sem Alþingi hefur áður samþykkt. Það á að aflétta undanþágunni, sem kom í veg fyrir að starfsmenn á veitinga- og skemmtistöðum nytu sömu vinnuverndar og aðrir, með þessu frumvarpi. Þetta eru rökin fyrir því að þessi leið var farin. Engir aðrir hagsmunir.