132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[15:45]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um þetta frumvarp komu fram nokkuð ítarlega þau andstæðu sjónarmið sem tekist er á um í þessu máli. Annars vegar hafa flutningsmenn frumvarpsins og ýmsir aðrir sem um það hafa talað barist fyrir samþykkt þess á grundvelli vinnuverndarsjónarmiða og hins vegar höfum við nokkrir hv. þingmenn haldið fram því sjónarmiði að jafnvel þó að markmiðið væri að ná fram aukinni vinnuvernd á þessu sviði væri engu að síður rétt að huga að öðrum þáttum. Það væri rétt að huga að þáttum eins og vernd eignarréttarins, atvinnufrelsi og hagsmunum þeirra 20% fullorðinna landsmanna sem að staðaldri reykja. Því í þessari umræðu verðum við auðvitað að hafa í huga, og það verður að vera ákveðinn grundvöllur í þessu, að tóbak er lögleg vara í landinu og ríkið hefur miklar tekjur af því að selja þessa vöru. Meðan menn eru ekki tilbúnir að stíga það skref að banna tóbak verður að meðhöndla þessa vöru eins og hverja aðra löglega vöru í landinu með þeim takmörkunum þó sem rökstyðja má með eðlilegum sjónarmiðum.

Við 1. umr. lýsti ég yfir andstöðu við frumvarpið á þeim grundvelli að ég teldi að það gengi of langt. Með þessu frumvarpi væri verið að ganga of langt í þá átt að takmarka reykingar. Það væri verið að ganga töluvert lengra en nauðsynlegt sé til að ná fram markmiðum þess um vinnuvernd og vinnuverndarsjónarmið. Það væri verið að velja ströngustu leiðina, þá leið sem felur í sér mestar takmarkanir af þessu tagi en ekki leitast við að fara mildar í sakirnar. Ekki leitast við að finna málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða heldur farið alla leið ef svo má segja og lagt til fullkomið bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum en það var það atriði sem, eins og komið hefur fram, var umdeildast í þessu.

Við 1. umr. málsins komu fram afar sterk rök að mínu mati fyrir því að fara vægar í sakirnar en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Það verður að segja að niðurstaða hv. heilbrigðis- og trygginganefndar veldur töluverðum vonbrigðum í því sambandi vegna þess að ekki er gengið til móts við þau sjónarmið eða rök sem komu fram við 1. umr. að þessu leyti. Þess vegna hef ég talið óhjákvæmilegt að flytja breytingartillögu ásamt fleiri þingmönnum, sem ég mun gera grein fyrir á eftir, í því skyni að fá fram þá málamiðlun sem ég tel að leiði til eðlilegustu niðurstöðu í þessu máli.

Áður en ég vík að henni vildi ég í örstuttu máli bregðast við þeim breytingartillögum sem hv. heilbrigðis- og trygginganefnd leggur fram en hún gerir í meginatriðum tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða sérákvæði sem bætast eiga við frumvarpið og fjalla eiga um sérverslanir með tóbak, en eins og kom fram í máli hv. formanns heilbrigðis- og trygginganefndar er þar verið að bregðast við dómi Hæstaréttar sem taldi að löggjafinn hefði gengið allt of langt í setningu tóbaksvarnalaganna 2001 varðandi bann við að hafa tóbak sýnilegt á sölustöðum. Þarna er vissulega um að ræða jákvætt skref í tillögu heilbrigðis- og trygginganefndar til að bregðast við þeim dómi. Þar er boðið upp á þann möguleika, ef svo má segja, að í sérverslunum með tóbak, þ.e. verslunum sem að meginhluta selja tóbak og tóbakstengdar vörur, verði leyfilegt að hafa tóbak sýnilegt. Ég tel því að fagna beri þeirri breytingartillögu þó að hún gangi vissulega ekki langt. Hún gengur raunar eins skammt og meiri hluti heilbrigðis- og trygginganefndar hefur talið sér fært að fara miðað við dóm Hæstaréttar en engu að síður er þar um að ræða jákvæðar breytingartillögur sem ber að styðja.

Á hinn bóginn er í breytingartillögum heilbrigðis- og trygginganefndar einnig fjallað um það svæði utan húss sem tilheyrir veitinga- og skemmtistöðum. Ólíkt hinni breytingartillögunni tel ég að í þessari tillögu felist þrenging sem ég get ekki stutt. Það er með öðrum orðum verið að gera bann við reykingum í einhvers konar skýlum eða tjöldum fyrir utan veitingastaði algilt í stað þess að skilja eftir ákveðna möguleika fyrir því. Ég tel að sú þrenging sem felst í þeirri breytingartillögu heilbrigðis- og trygginganefndar sé ekki til bóta og get því ekki stutt hana.

Ég vil í örstuttu máli einnig lýsa yfir stuðningi við breytingartillögu sem fram hefur komið frá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem lýtur að málfrelsissjónarmiðum í sambandi við tóbaksvarnir. Þingmaðurinn mun væntanlega gera grein fyrir tillögu sinni á eftir. En ég tel að í tóbaksvarnalögunum eins og þau eru nú sé gengið of langt í að skerða málfrelsi með því fortakslausa banni að nefna einstakar tóbakstegundir í fjölmiðlaumfjöllun. Ég tel að það bann hafi gengið allt of langt og mótmælti því reyndar utan þings þegar það var sett á hér fyrir nokkrum árum. Því vil ég lýsa yfir stuðningi við tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals og tel að hún sé til mikilla bóta.

Varðandi það atriði sem ég hef ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum lagt fram breytingartillögu um, þá vil ég benda á að tillagan er á þingskjali 1336. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, Bjarni Benediktsson og Björgvin G. Sigurðsson. Segja má að tilgangur þeirrar tillögu sé að ná fram þeirri millileið, sáttaleið eða málamiðlun, sem við teljum að rétt sé að fara í því banni sem verið er að herða á veitinga- og skemmtistöðum.

Eins og hv. þingmenn muna gengur efni frumvarpsins út á að gera bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum alveg fortakslaust. Í dag er staðan sú að veitingastaðir geta boðið upp á reykingasvæði og reyklaus svæði, þó með því skilyrði að loftræsting sé fullnægjandi og að reyklaust svæði sé meiri hluti veitingarýmis. Það er með öðrum orðum með því frumvarpi sem heilbrigðisnefnd lýsir stuðningi við verið að afnema möguleikann til að bjóða upp á slík reykingasvæði. Eins og fram hefur komið, bæði við 1. umr. og eins í ræðum hv. þingmanna hér á undan, er þetta bann rökstutt með tilliti til vinnuverndarsjónarmiða þeirra starfsmanna sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum. Til hliðar eru nefndir hagsmunir annarra gesta á veitingastöðum en þungamiðjan er staða þeirra starfsmanna sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum og réttur þeirra til reykleysis, eins og sagt er í frumvarpi og nefndaráliti.

Sú leið sem við bjóðum upp á í breytingartillögunni nær þessu markmiði að mati okkar flutningsmanna. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að reykingar séu leyfðar í sérstökum herbergjum eða á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum. Við gerum ráð fyrir að þessi rými skuli aðgreind frá öðru rými staðanna með þeim hætti að loftstreymi á milli sé í lágmarki, t.d. með veggjum eða gleri. Við nefnum jafnframt að tryggja skuli fullnægjandi loftræstingu í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingaráðherra setur.

Við tökum fram, til þess að ná þessum markmiði um vinnuvernd starfsmanna, að sala og afgreiðsla veitinga megi ekki fara fram á þessum svæðum og teljum að þar með geti okkar leið uppfyllt markmið frumvarpshöfunda og tillöguflytjenda, vegna þess að allur rökstuðningur þeirra hefur frá upphafi snúist um að sú hætta sem starfsmönnum er búin af völdum óbeinna reykinga stafi af því að þeir þurfi stöðugt að vinna í reykmettuðu umhverfi. Hér er gert ráð fyrir að svo verði ekki. Hér er gert ráð fyrir að reykingar fari einvörðungu fram á stöðum sem eru algjörlega afmörkuð, annaðhvort sérstök herbergi eða rými sem er fullkomlega aðgreint frá öðru rými staðanna með veggjum eða gleri. Þess vegna eru þeir starfsmenn sem vinna við afgreiðslu veitinga ekki undir það seldir að þurfa stöðugt að vera í reykmettuðu umhverfi.

Við teljum með öðrum orðum að þarna sé verið að fara milliveg. Þarna sé farin millileið til að koma til móts við þau vinnuverndarsjónarmið sem frumvarpið byggir á en jafnframt gert ráð fyrir möguleika fyrir þau 20%, eða hvað það er, fullorðinna einstaklinga sem reykja til að finna sér afdrep á sumum veitinga- og skemmtistöðum þar sem þeir gætu reykt.

Mér finnst því vandséð að hægt sé að leggjast gegn þessari breytingartillögu á grundvelli vinnuverndarsjónarmiða, sem eins og menn muna eru grunnur þeirra tillagna sem hér eru lagðar fram. Ég verð að játa að ég held að það sem nefnt er í nefndarálitinu um stöðu þeirra starfsmanna sem þurfa að þrífa þessi rými, og kom raunar einnig fram í máli hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur áðan, sé harla langsótt að tengja það inn í vegna þess að allur málflutningurinn hefur gengið út á það að menn þurfi að vera í reykmettuðu umhverfi langtímum saman. Ég held að þarna sé verulegur greinarmunur. Menn þurfa ekki annað en velta því fyrir sér að það er allt önnur staða hjá þeim starfsmönnum sem kannski einu sinni eða tvisvar á sólarhring fara í stutta stund inn í þessi reykrými, sem ég minni á að eru loftræst, til að þrífa. Staða þeirra er eðli málsins samkvæmt allt önnur en staða þeirra starfsmanna sem standa á bar við afgreiðslu eða þjóna til borðs þar sem reykt er eða tónlistarmanna á sviði í sal þar sem reykt er. Það segir sig sjálft að staða þeirra er allt önnur. Þó að við göngum út frá því, og ekki ætla ég að draga það í efa, að starfsmenn á veitinga- og skemmtistöðum geti verið í hættu vegna óbeinna reykinga þá er staðan með allt öðrum hætti hjá þeim starfsmönnum sem fara inn í stutta stund, sjaldan, til að þrífa rýmin en hjá þeim sem standa kannski kvöld eftir kvöld frá kvöldmatarleyti og fram á nótt í reyk. Það er allt önnur staða. Ég verð að segja að mér finnst það harla langsótt í málflutningi stuðningsmanna frumvarpsins að leggja þetta tvennt að jöfnu.

Varðandi afstöðu Samtaka ferðaþjónustunnar þá vil ég segja að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum þeirra. Samþykkt aðalfundur þeirra á síðasta ári þar sem boðið var upp á samræður milli samtakanna og heilbrigðisyfirvalda vegna þessa máls vakti auðvitað athygli mína. Síðan hefur komið fram að samtökin hafa stutt þetta frumvarp og það bann sem í er fólgið. Sömu sjónarmið munu hafa komið fram með eindregnum hætti hjá þeim fyrir heilbrigðisnefnd. Ég virði sjónarmið þessara samtaka. Hins vegar verð ég að segja að ég efast um að þessi samtök tali fyrir hönd allra veitinga- og skemmtistaðaeigenda í landinu. Þrátt fyrir að samtökin hafi komist að þessari niðurstöðu get ég ekki fallist á sjónarmið þeirra vegna þess að ég tel að ef einstakir eigendur veitinga- og skemmtistaða vilja bjóða upp á rými af þessu tagi eigi löggjafinn ekki að koma í veg fyrir að þeir geti það. Ég tel ekki að samtök á borð við Samtök ferðaþjónustunnar hafi heldur umboð til að semja slíkan rétt frá öllum sem reka fyrirtæki á þessu sviði. Þó að ég sé afar velviljaður þessum samtökum get ég ekki fallist á málflutning þeirra í þessu sambandi.

Ég bendi á að í breytingartillögu minni og félaga minna er gert ráð fyrir að þarna sé um að ræða heimild, að sjálfsögðu ekki annað en heimild fyrir þá sem það vilja, til að bjóða upp á reykingaherbergi með þessum hætti. Við vitum auðvitað að sumir hafa aðstöðu til þess og aðrir ekki, með sama hætti og sumir veitinga- og skemmtistaðir hafa matsölu og aðrir ekki, sumir veitinga- og skemmtistaðir hafa dansgólf og aðrir ekki. Við gerum auðvitað aldrei að ráð fyrir því í lögunum að allir veitinga- og skemmtistaðir séu settir í sama flokk. Þeir búa við mismunandi aðstæður. Við leggjum til að þeir sem hafa aðstöðu til og vilja leggja í kostnað, hugsanlega, við aðgreiningu rýmis og loftræstingu geti gert það. Við teljum að þessi breytingartillaga sé vel til þess fallin að ná sáttum og miðla málum milli þeirra andstæðu sjónarmiða sem takast á í þessu máli.