132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:02]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég á sæti í félagsmálanefnd sem fjallaði um vinnuverndarþátt frumvarpsins. Ég velti fyrir mér þeirri hugmynd sem hv. þingmaður talar fyrir og þeir sem flytja þetta mál með honum, að flytja tillögu um að leyfa reykingar í sérstökum herbergjum eða á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum og horfði þá til persónufrelsis eða réttar þeirra sem reykja, þótt vissulega vegi þyngst í öllu dæminu að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu, vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks og vernda rétt þeirra sem ekki reykja.

Á fundi nefndarinnar komu fram þrjú atriði sem urðu til þess að ég a.m.k. dreg í efa, svo ekki sé meira sagt — hv. þingmaður verður þá að sannfæra mig betur ef ég á að styðja tillögu hans — sem settu mig í vafa um að skynsamlegt væri að styðja slíka breytingartillögu.

Í fyrsta lagi kom fram í nefndinni að við verðum að virða rétt þeirra sem vinna á veitingahúsum eins og hér hefur komið fram. Lýðheilsustöð benti á það vinnuverndarsjónarmið að það gilti líka gagnvart þeim herbergjum sem starfsmenn þurfa að þrífa. Nefndin lagði áherslu á að vinnuverndarlöggjöfin yrði að gilda um allt starfsfólk og engin rök standi til þess að starfsfólk veitinga- og skemmtistaða, sem m.a. þarf að þrífa þessi herbergi, njóti ekki heilsusamlegs umhverfis.

Í annan stað var bent á að veitingamenn vilja ekki fá þessa breytingu. Það kom skýrt fram í nefndinni. Þeir kalla ekki einu sinni eftir því að til staðar sé heimild eins og hv. þingmaður lagði til.

Í þriðja lagi spyr ég hv. þingmann, auk þessara tveggja atriða, hvort hann telji ekki að þetta geti skekkt samkeppnisstöðu þeirra sem hafa ekki möguleika til að koma á sérstökum reykherbergjum. Mundi það ekki skekkja samkeppnisstöðuna (Forseti hringir.) í veitingabransanum ef þetta yrði tekið upp með þeim hætti sem hv. þingmaður leggur til?