132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:08]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi hlýtur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að gera greinarmun á stöðu þeirra starfsmanna sem eru stöðugt í reykjarkófi og hinna sem þurfa kannski í örstutta stund á hverjum sólarhring að fara inn í reykræst rými til að þrífa það. Það er bara spurning um að beita örlítilli skynsemi og reynslu til að átta sig á því að það er með engu móti hægt að bera stöðu starfsmanna saman að því leyti.

Varðandi samkeppnisstöðuna er um það að ræða að löggjafinn getur með engu móti skikkað alla veitingastaði í landinu til þess að vera eins. Löggjafinn getur ekki skikkað alla veitingastaði til þess að bjóða t.d. upp á dansgólf, upp á mat eða tiltekna matseðla. Veitingastaðir eru ólíkir. Samkeppnisstaða þeirra er ólík vegna alls konar þátta, vegna stærðar, vegna staðsetningar og þess háttar. Þrátt fyrir að sumir geti nýtt sér heimild til að bjóða upp á reykingar en aðrir ekki þá tel ég ekki að löggjafinn skekkti samkeppnisstöðu þeirra, alls ekki. Samkeppnisstaða þeirra er ólík. Það sem löggjafinn mundi segja væri: Ef menn geta og vilja bjóða upp á svona rými þá geta þeir gert það, þá ætlar löggjafinn ekki að stoppa það.

Varðandi það sem oft kemur fram í máli þeirra hv. þingmanna sem vilja fullkomið reykingabann, að þetta muni vera svo óhagstætt fyrir þá veitingastaði sem ekki geta boðið upp á reykingarými, þá minni ég á að í frumvarpinu og greinargerð með því er m.a. greint frá því að 80% fullorðinna reyki ekki. Þar eru menn því að slást um lítinn hluta markaðarins, ef menn eru bara að stíla inn á reykingamenn, fyrir utan það sem nefnt hefur verið sem rök fyrir málinu (Forseti hringir.) að fleiri muni fara á reyklausa veitingastaði (Forseti hringir.) þannig að reykleysið ætti að vera aðdráttarafl fyrir veitingastaði ekki síður en reykingaherbergin.

(Forseti (JóhS): Forseti vil biðja hv. þingmann að virða ræðutíma.)