132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að íslenski löggjafinn gangi allt of langt með þessu máli. Ég er sannfærður um að verið sé að stíga mikið óheillaskref í forræðisátt þar sem nokkuð taumlausu stjórnlyndi og mikilli forræðishyggju er beitt af fullu afli, þvert á alla flokka því miður. Menn sjást alls ekki fyrir því það er hægt að ná markmiðunum á annan hátt. Markmiðum sem samstaða er um og ég tek heils hugar undir og er baráttumaður fyrir, þ.e. reyklaust umhverfi fyrir alla þá sem vilja ekki anda að sér reyk og alla þá sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum. Því markmiði er að sjálfsögðu hægt að ná.

Við fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar leggjum til, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson, sem er 1. flutningsmaður kynnti hér í ræðustól á undan mér, tillögur til sátta þar sem markmiðinu er náð með mildari aðferðum, markmiðinu um reyklaust umhverfi fyrir þá sem ekki reykja, fyrir þá sem vilja ekki vera í reyk, fyrir þá sem starfa á veitinga- og skemmtistöðum en vilja vera í reyklausu umhverfi. En um leið er því fólki, fullorðnu og sjálfráða fólki, gefið svigrúm til að reykja kjósi það svo. Og kjósi einhverjir skemmtistaðaeigendur að halda úti stað þar sem boðið er upp á sérstök herbergi eða afmörkuð svæði á veitinga- og skemmtistöðum, segir hér í tillögunni, með leyfi forseta:

„Þessi rými skulu aðgreind frá öðru rými staðanna með þeim hætti að loftstreymi á milli sé í lágmarki, t.d. með veggjum eða gleri, og tryggja skal fullnægjandi loftræstingu í samræmi við reglur sem heilbrigðisráðherra setur, sbr. 6. mgr. Sala eða afgreiðsla veitinga er ekki heimil á svæðum þar sem reykingar eru leyfðar samkvæmt þessari málsgrein.“

Hér er verið að rétta út sáttarhönd af fjórum þingmönnum sem eru afdráttarlaust á móti þessu fortakslausa banni. Hér er verið að þrengja mjög að. En sáttin felst í að markmiðinu um reykleysi fyrir þá sem vinna á stöðunum og vilja ekki vera í reyk er náð fullkomlega. En hins vegar er komið til móts við það fullorðna og sjálfráða fólk sem vill reykja eða vera í reyk, að fá að gera það á veitinga- og skemmtistöðum sem veitingahúsaeigandi kýs að halda úti.

Þá er spurt: Skekkir það ekki samkeppnisstöðu veitingahúsa því ekki geta öll veitingahús sett upp slík rými? Allt skekkir þá samkeppnisstöðu. Ekki þetta frekar en annað. Ekki hafa öll veitingahús pláss til að setja upp dansgólf eða diskókúlur, eða eldhús af einhverri sort eða þessa og hina aðstöðuna sem lokkar og laðar ákveðna hópa fólks inn á staðinn. En eitthvað annað lokkar og laðar fólk inn á aðra staði.

Reykleysi er aðlaðandi fyrir einn og reykherbergi er aðlaðandi fyrir annan. Það er val hvers veitingahúsaeigenda hvernig stað hann rekur eða hvar hann kýs að setja sinn stað niður, hvernig stað hann kýs að starfrækja. Lítinn stað þar sem ekki er kostur á sérstöku rými og er þar af leiðandi reyklaus eða stærri stað þar sem hægt er að vera með sérstakt reyksvæði þar sem ekki er þjónusta fyrir þá sem reykja. Að sjálfsögðu á að gefa veitingahúsaeigendum og fullorðnu og sjálfráða fólki frelsi til að athafna sig með ákveðnum hætti ef það veldur ekki öðrum skaða.

Hér er verið að hafa vit fyrir fólki með mjög forræðislegum og fráleitum hætti að mínu mati. Vek ég athygli á því að margt það fólk sem berst gegn þessu fortakslausa banni er fyrst og fremst að berjast og vernda frelsi einstaklinga en reykingarnar eru þar algjört aukaatriði. Fyrst löggjafinn fetar sig inn á þessa braut, að hafa svo mikið og djúpt vit fyrir fólki að hann grípur fram fyrir hendurnar á því og bannar því að gera þetta og bannar því að gera hitt, má allt eins spyrja: Af hverju er ekki gengið lengra? Af hverju fer ekki löggjafinn að ræða áfengisbann eins og hér var fyrir 80 árum? Það liggur algjörlega ljóst fyrir að áfengi veldur miklu meiri skaða í íslensku samfélagi en nokkurt annað fíkniefni. Miklu meiri skaða en reykingar. Miklu meiri skaða en kannabis, kókaín eða amfetamín. Margfaldlega meiri skaða en nokkurt annað einstakt fyrirbæri í samfélaginu. Ég held það valdi miklu meiri skaða en t.d. umferðin. Af hverju grípur löggjafinn ekki inn í og þrengir að neyslu þess í staðinn fyrir að veita fólki meira svigrúm?

Kannski af því að það er einhvers konar sátt í samfélaginu um að neysla áfengis sé lögleg og heimil rétt eins og neysla á óhollum og bráðdrepandi mat, djúpsteiktum skyndibitamat sem allir vita að er stórkostlega óhollur og veldur sérstöku tjóni börnum og unglingum sem eru sólgin í hann og vanin á hann af þeim sem reka veitingastaðina. Af hverju er ekki gengið lengra í að koma í veg fyrir þetta fyrst verið er að hafa vit fyrir fullorðnu og sjálfráða fólki þegar jafnvel er boðið upp á þá mildu sátt að reykingar séu bannaðar þar sem þjónusta er veitt? Reykingar séu bannaðar þar sem almenningur er en eingöngu heimilaðar í sérstökum rýmum þar sem tryggt er að reykurinn valdi engum þeim skaða sem ekki kemur þangað inn og þar sem engin þjónusta er veitt. Ég veit ekki. Engum af þessum spurningum hafa baráttumenn fyrir þessari forræðishyggju svarað.

Þegar 1. umr. um þetta mál lauk hér fyrr í vetur var ég sannfærður um að málið kæmi töluvert betra út úr nefndinni aftur. En það kemur þaðan engu betra að þessu leyti. Þar var greinilega enginn vilji til staðar. Vissulega þvert á stjórnmálaflokka og er það sorglegt í sjálfu sér að þverpólitískt bandalag skuli vera um þessa forræðishyggju en ekki tekið tillit til vel rökstuddra og málefnalegra athugasemda og tillagna um að reykingar skuli leyfðar á afmörkuðum svæðum á veitinga- og skemmtistöðum. Þetta er mild leið sem hér er lögð til. Stigið alla leið í þá átt að ná því markmiði sem ég er alveg sannfærður um að hver einasti maður hér á Alþingi vill ná, sem er að tryggja að allir þeir sem fara á veitinga- og skemmtistaði geti verið reyklausir og allir þeir sem þar vinna geti verið reyklausir. En einungis að þeim sem kjósa að reykja og þeim sem kjósa að bjóða upp á slíka þjónustu á sínum veitinga- og skemmtistöðum sé ekki bannað það með lögum. Að það sé ekki bannað með lögum að vera með sérstakt herbergi til að leyfa mönnum að setjast niður á veitinga- og skemmtistað og reykja vindla í einhvers konar vindlaklúbbi.

Það er lögbrot á Íslandi ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Þetta er fáránlegt frumvarp. Þetta er fáránleg forræðishyggja og fyrir henni hafa engin boðleg rök verið færð. Það er hægt að ná markmiðinu með mildari leið en hér er lagt til. Við höfum fært ítarleg rök fyrir því við 1. og 2. umr. um málið.

Ef fer fram sem horfir virðist málið því miður ætla að ná fram að ganga, af því að það eru allt of fáir sem eru að berjast gegn þessu máli. Við erum fjórir sem flytjum tillöguna. Ég trúi því nú og vona að það séu fleiri sem eru á móti því. Það kemur í ljós í atkvæðagreiðslunni. En hér er einfaldlega gengið gegn stjórnarskrárvörðum rétti fólks til friðhelgi einkalífs. Þetta er grundvallarmál. Þetta er nefnilega grundvallarumræða um frelsi og forræði fullorðinna og sjálfráða einstaklinga yfir athöfnum sínum og orðum. Algjörlega. Þetta tengist líka tjáningarfrelsinu. Það má ekki tala um einstakar tóbakstegundir í fjölmiðlum með neinum hætti. Sjónarmiðum vinnuverndar, öryggis og allra þeirra hluta er hægt að ná fram með þeirri tillögu sem við, fjórir þingmenn, flytjum hér og leggjum til sem sátt í þessu máli.

Það kemur á óvart hvað tillagan fær dræmar undirtektir hjá þeim sem hafa talað hér í dag. Það veldur mér vonbrigðum og það kemur mér mjög á óvart hvað það er sterkur pólitískur rétttrúnaður fyrir því að það fortakslausa bann gegn reykingum á veitinga- og skemmtistöðum sem hér er lagt til skuli ná fram að ganga. Pólitískur rétttrúnaður sem er ámælisverður og dapurlegur. Ég vona að þessi umræða leiði til þess að málamiðlunin, sáttatillagan, nái fram að ganga. Af því markmiðin eru mildari leiðir eins og við leggjum fram hér. Alveg sama þó það sé hægt að tína til hluti eins og samkeppnisstöðu veitingahúsa o.s.frv.

Það er ekki Alþingis að jafna samkeppnisstöðu veitingahúsa, að sjálfsögðu ekki. Sumir veitingastaðir eru nógu stórir til að bjóða upp á dansgólf og aðrir ekki. Sumir eru nógu stórir til að bjóða upp á reykrými og aðrir ekki o.s.frv. Sumir geta boðið upp á þjónustu sem aðrir geta ekki boðið upp á af því þeir eru staðsettir þarna en ekki hér, af því þeir eru svona stórir og af því aðrir eru svona litlir. Það er bara eins og hlutirnir ganga fyrir sig. Það er ekki löggjafans að jafna sérstaklega samkeppnisstöðu veitingahúsa með einhverjum sértækum aðgerðum.

Við erum að tala um fullorðið sjálfráða fólk og hvað það tekur sér fyrir hendur þegar það er tryggt að það valdi ekki öðrum skaða — það er kjarni málsins — þessir fullorðnu sjálfráða einstaklingar sem kjósa að reykja einstöku sinnum eða oft af því tóbak er lögleg vara. Af hverju þá ekki að banna tóbakið alveg? Það hlýtur að vera miklu áleitnari spurning en þessi hér.

Fullorðnir sjálfráða einstaklingar sem kjósa að reykja þegar þeir fara út að skemmta sér eða borða góða máltíð, fullorðnir sjálfráða einstaklingar sem dettur í hug að stofna veitingastað þar sem kjarninn í starfseminni yrði lítill vindlareykingaklúbbur — segjum að ég vildi stofna stað þar sem menn borðuðu nokkurra rétta máltíð og gætu eftir það sest niður og reykt vindil, kannski á milli máltíða, kannski á milli rétta, kannski eftir matinn, það er algjörlega þeirra mál. Þá er löggjafinn, Alþingi Íslendinga, búinn að banna það. Það er búið að banna það rétt eins og um sé að ræða einhvers konar áhlaup að ólöglegu fíkniefni eins og heróíni, kókaíni, kannabis eða einhverju slíku.

Aldeilis ekki. Tóbak er lögleg vara á Íslandi, rétt eins og áfengi. En þá þarf að fara þessa ósmekklegu leið til að þrengja að því að fólk neyti þess. Það eru margar aðrar miklu betri leiðir. Langbesta leiðin er einfaldlega forvarnir og fræðsla. Rétt eins og þegar talið berst að neyslu fíkniefna. Það er hægt að vera hér með menn með Schäfer-hunda eltandi uppi einhverja smáglæpamenn og dópsala út um allt land og það skilar engum árangri. Langbesta leiðin og sú árangursríkasta er einfaldlega forvarnir og fræðsla fyrir ungt fólk til að koma í veg fyrir að eftirspurn skapist eftir eitrinu. Það er langbesta leiðin til að koma í veg fyrir fíkniefnaneyslu, áfengisneyslu og tóbaksreykingar. Í stað þess að löggjafinn sé með einhverjum ósmekklegum hætti, yfirgengilegri forræðishyggju, að vaða inn í einkalíf fullorðins fólks og stjórna því hvað það kýs að gera við löglega neysluvöru hér á landi.

Hvað með skyndibitaruslið sem er verið að troða upp á börn í auglýsingum í barnatíma á hverjum einasta morgni á Íslandi um helgar? Það er verið að auglýsa sælgæti, skyndibitadrasl og allar þessar vörur sem eru stórhættulegar börnum og unglingum. Stórhættulegar. Það er ekkert verið að gera í að þrengja að því að þeim óþverra sé haldið að börnum, óþverra sem veldur þeim miklu meiri skaða en margt annað. Ég er ekki að segja að það eigi að banna það. Ætli foreldrar þurfi ekki að hafa vit fyrir börnum sínum og frelsi til að velja þeim mat og annað.

Við þurfum einfaldlega ekki að ganga svona langt. Fjarri því. Tillagan sem lögð er fram af þeim sem eru andstæðir þessu fortakslausa banni er ákaflega sanngjörn sáttaleið, mildari leið til að ná fullkomlega fram markmiðum bannsins sem er að þeir sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum þurfi ekki að anda að sér tóbaksreyk enda eiga þeir að sjálfsögðu alls ekki að þurfa að gera það. Það efast enginn um það, og alls ekki ég, eitt augnablik að reykingar eru bráðdrepandi og virkilega óhollar. Bæði beinar og óbeinar. Svo er hægt að rífast um hversu óhollar þær eru og hvað þær drepi marga. En þær drepa gríðarlegan fjölda fólks út um allan heim á hverju ári og eru í sjálfu sér hörmulegt fyrirbrigði. En við erum að tala um löglega vöru og við erum að tala um inngrip stjórnvalda inn í líf fullorðins, sjálfráða fólks með þeim hætti sem mér finnst algjörlega óþolandi. Það er nefnilega hægt að ná fram öllum markmiðunum, öryggismarkmiðunum, varúðarmarkmiðunum, vinnuverndarsjónarmiðunum, sem eru allt sjálfsögð sjónarmið sem löggjafinn á að beita sér fyrir að tryggð séu, með öðrum hætti.

Að sjálfsögðu á enginn sem vinnur á veitinga- og skemmtistað að þurfa að anda óþverranum að sér. En því markmiði er hægt að ná með allt öðrum og mildari hætti. Hér er lögð til mjög skynsamleg, jákvæð og sanngjörn leið að því marki. Ég hefði haldið að þeir sem eru að berjast fyrir banninu mundu nýta sér hana sem sáttaleið, sanngjarna, vitræna og jákvæða sáttaleið í þessu máli.

Í sjálfu sér var ég að vonast eftir því að þegar þetta mál kæmi til 2. umr. yrði hlutur þess miklu meiri hér í Alþingi. En við erum á síðustu dögum þingsins núna og það er hastað á menn að dvelja ekki um of við hvert mál. Ég hef reynt að ná fram á tæpum 20 mínútum öllum þeim helstu sjónarmiðum sem ég tel vera uppi í málinu þó að það megi vissulega fara miklu ítarlegar og dýpra í málið, og að sjálfsögðu leiða umræðuna þangað sem hún á heima. Umræðan á að snúast um frelsi einstaklingsins í þjóðfélaginu. Frelsi einstaklingsins og heimild löggjafans til að grípa með svo freklegum hætti inn í líf hans. Það er stór spurning. Það er sú grundvallarumræða sem liggur að baki þessari lagasetningu. Þessari fráleitu og dapurlegu lagasetningu. Þessari miklu forræðishyggju sem ég hélt fyrst að væri eitthvert dekurmál einstakra þingmanna en kæmi aldrei fram með þessum hætti og ætti að keyra í gegnum þingið á síðustu dögum inni í einhverjum samkomulagstillögum um að klára þingið á tilteknum tíma. Þetta er vont mál. Ég vona að það nái aldrei fram að ganga nema þá með breytingartillögunni sem við flytjum hér fjórir þingmenn og höfum talað fyrir tveir flutningsmenn, hv. þm. Birgir Ármannsson og sá sem hér stendur.