132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er best að gera strax þá játningu að ég hef nokkra hríð verið í vafa um hverja afstöðu eigi að taka til þess frumvarps sem er hér til umræðu. Annars vegar er auðvitað sjónarmið persónufrelsis og að hinu opinbera sé ekki rétt að ganga á rétt manna til að haga sér eins og þeim sýnist nema sérstakar brýnar ástæður komi til. Sú gamla kenning um frelsið að það eigi að vera eins mikið og hægt er og eins gervallt og það getur orðið þangað til það fer að skerða annarra manna frelsi.

Það er ágætt að halda þessu fram og auðvelt að taka undir þetta. En síðan eru markalínurnar auðvitað óskýrari. Á hinn bóginn er þetta auðvitað heilbrigðismál og það hefur verið skoðun mín nokkra hríð, hvert sem samband mitt hefur hverju sinni verið við þetta fíkniefni, tóbakið eða nikótínið, að í augum seinni tíma manna muni verða litið á öskubakka okkar og ýmislegt athæfi kringum sígarettur og aðrar tegundir reyktóbaks sömu augum sem við lítum nú hrákadalla 19. aldar.

Ég hef að lokum komist að því að hagsmunir heilbrigðisins og lifenda, lífsins hreinlega, eigi að vega meira en tillit það sem menn kunna að taka hér til persónufrelsisins og hef ákveðið að styðja frumvarpið. Ég átti líka í ákveðnum erfiðleikum með að taka afstöðu til breytingartillögunnar sem fjórir félagar hv. þingmenn hafa hér flutt. Vegna þess að að einhverri slíkri millileið var ég sjálfur að leita einkum til þess að gera þessi viðbrigði ekki eins snögg og þau sýnilega verða. Ég hafði t.d. hugmynd sem ég bar upp við kunnáttumenn um hvort hægt væri að skipta veitingastöðum með einhverjum hætti í drykkjubari annars vegar og hins vegar kannski aðeins kurteislegri matstaði. Mér var tjáð að menn yrðu mjög fljótir að sjá við því að gera drykkjubarina að matstöðum eða einhvers konar framreiðslustöðum og þetta væri úrræði sem ekki gengi.

Ég held því miður, án þess að ég ætli að fara að orðlengja um það, að hið sama gildi um hin sérstöku reyksvæði þeirra Birgis Ármannssonar og félaga hans hv. þingmanna. Mér sýnist af reynslunni af því að íslensk veitingahús haldi uppi sérstökum reyklausum svæðum, sem þeim ber að gera, að þeim muni ekki ganga betur að virða ákvæði um stranglega afmörkuð reyksvæði.

Þannig að svona er nú mín afstaða í þessu. Ég ætla ekkert að rökstyðja hana frekar satt að segja og er ekki kominn hér upp til að lýsa henni sérstaklega þótt ég teldi mig þurfa að gera það fyrst þegar ég tók þátt í umræðu um málið, heldur að taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal, tillögu hans að afnema ákvæðið um að mönnum sé ekki heimilt að tala öðruvísi um tóbaksvöru en henni til lasts. Ástæða mín fyrir þessum stuðningi er ósköp einfaldlega sú að þarna gengu tóbaksvarnamenn of langt og höggva í það sem hlýtur að teljast vera kjarni tjáningarfrelsisins, svo langt að þessu var mótmælt á sínum tíma mjög harðlega, því miður of seint. Það gerðu samtök blaðamanna, rithöfundar og einstakir áhugamenn vegna þess að þau dæmi sem Pétur Blöndal nefnir hér eru auðvitað fullkomlega gild. Rithöfundar, fræðimenn, áhugamenn um tóbak eða fíkniefni eða hvað sem vera skal verða að hafa fullan rétt til þess að tala um tóbaksvöru eins og hverja aðra vöru. Hvort sem hún er frá í upphafi 6. áratugarins, eins og hjá Pétri Blöndal sem nefndi hérna sérstaklega tegundirnar Camel, Chesterfield og Raleigh, sem vekja upp nánast hugljúfar minningar hjá mér, svo ég brjóti nú lögin með sama hætti og Pétur Blöndal. Ekki af því ég hafi reykt mjög mikið af þessum tegundum eða einhverjum öðrum tóbaksvörum heldur var þetta reykt í kringum mig á barnsárum mínum.

Ég veit hins vegar að meiningin með þessu ákvæði var góð. Hún var sú að loka glufum sem menn kynnu að notfæra sér til auglýsinga á tóbaki. Ég er ósammála Pétri Blöndal um að ekki eigi að banna auglýsingar á tóbaki. Ég tel að það eigi að gera og tek eftir að það eru öll ríki að gera með einhverjum hætti, nálgast það mark vegna þess að þetta er auðvitað heilbrigðisvandamál sem við erum að glíma við. Þó það hafi gengið skrykkjótt þá hefur það almennt gengið vel á síðustu árum, að minnsta kosti í Vestur-Evrópu, að gera það. Við eigum að vera öðrum heimssvæðum til fyrirmyndar um það efni.

Þrátt fyrir að þessi setning sé í rauninni sett inn til að auðvelda eftirlit með auglýsingabanninu, og má færa henni það til bóta, þá gengur hún ósköp einfaldlega á það svið sem ekki er hægt að leyfa sér að ganga á. Þegar um þetta ræðir verður að ætlast til að lögregla og dómstólar hafi sérstök úrræði til að ráða við verkefni sem vissulega er ekki einfalt, án þess að þessum aðferðum sé beitt. Hér er í raun um meðalhófsreglu að ræða enda er efast um það í þessari umræðu að þetta ákvæði standist stjórnarskrá. Þannig að það sem Pétur Blöndal hv. þingmaður er hér að gera og ég með honum og vonandi margir fleiri, er að koma í veg fyrir að hér reyni á stjórnarskrána gagnvart þessu ákvæði.

Ég hef tekið eftir því, og held ég hafi rétt fyrir mér hér, að það hefur ekkert reynt á þetta gagnvart dómstólum. Ég man eftir einu dæmi þegar ágætur félagi minn, Karl Th. Birgisson, skrifaði rétt eftir að þetta var samþykkt grein í blað, ég man nú ekki hvaða blað, þar sem hann ræddi um tóbaksvörur með ýmsum hætti. Sú grein var auðvitað á sinn hátt ögrun og það var eftirtektarvert að þeirri ögrun var ekki tekið. Lögreglan fór ekki á staðinn að ræða við Karl Th. Birgisson. Ekki var höfðað mál af hálfu saksóknara gegn Karli Th. Birgissyni. Þannig stóðu yfirvöld í raun og veru ekki við þau lög sem Alþingi hafði sett í þessu efni, og það er kannski ástæða til að líta á hlutina fyrst svo er.

Ég kem hér til að hrósa hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir þessa tillögu sem ég hefði gjarnan viljað flytja sjálfur. En hann varð fyrri til og reyndar nær vettvangi að þessu leytinu, og ég heiti stuðningi mínum við hann og hvet menn til að ljá henni sitt atfylgi.