132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[16:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef haft það sjónarmið í þessu efni og er nú ekki frumlegt að um tóbaksvarnir eigi það að gilda að við eigum að stíga þar eins smá skref og við getum til þess að vera samferða eins og hægt er þróuninni í þessu efni sem hefur verið sú að færri og færri reykja. Ég held að lokamarkmið okkar sé að koma tóbakinu burt, að reyktóbakið sé ekki lengur almenn neysluvara eins og við ólumst upp við öll sem erum hér í salnum. Áhyggjur mínar af þessu frumvarpi varða ekki markmið þess heldur eru þær spurning um hvort við séum að stíga of stórt skref í einu. Við umhugsun mína, sem sjálfsagt hefur ekki verið af því umfangi sem hún hefur verið fyrir menn í heilbrigðisnefndinni, hef ég hins vegar komist að því að hér sé ekki um annað að ræða en að stíga nógu stórt skref til að það sé afdráttarlaust, að menn viti það áður en þeir nálgast þennan geira mannlífsins að ætla að fara á veitingastað að það sé klárt að þar sé ekki hægt að neyta tóbaks innan dyra.

Ég tek eftir því í öðrum ríkjum þar sem þetta bann hefur verið innleitt að þar virðist það hafa verið afdráttarlaust. Ég var t.d. í Noregi í vetur, á kuldaskeiði þar í landi, og bjó hjá kunningja mínum og við fórum aðeins út á bari á kvöldin sem er ekki til tíðinda. Þá búa reykingamenn sig afar vel, fara í dúnúlpur sínar og hafa með sér trefla og hanska og sitja gjarnan utan við barina þannig að á sumum stöðum sem við sóttum þarna, í verkamannahverfinu í Austur-Ósló, voru iðulega fleiri gestir utan dyra en innan en voru þó á staðnum. Þeim sem voru innan dyra leið náttúrlega ákaflega vel í sínu ágæta hreina lofti og gátu neytt sinnar drykkjarvöru betur en ella.