132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

tóbaksvarnir.

388. mál
[17:02]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en mér finnst samt óhjákvæmilegt að svara ákveðnum atriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar varðandi breytingartillögu mína og þriggja annarra þingmanna.

Sá reginmunur er á útfærslunni sem við leggjum til og núverandi ástandi að gert er ráð fyrir að reykingasvæðin verði aðgreind með veggjum, gleri eða einhverju slíku. Sú staða sem er uppi í dag og hv. þingmaður lýsti réttilega, að menn geta lent í því að vera á reyklausu svæði en búa við það að reykt sé á næsta borði, kannski einn og hálfan metra í burtu, verður ekki uppi verði breytingartillaga okkar samþykkt. Breytingartillagan gengur út á að þau afmörkuðu svæði sem um er að ræða verði aðgreind frá öðru rými með veggjum, gleri eða einhverju sambærilegu og með því móti er auðvitað verið að stíga mjög stórt skref í áttina til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður hefur mælt fyrir. Það er reginmunur á ástandinu eins og það er í dag og því ástandi sem yrði ef breytingartillaga okkar næði fram að ganga. Þá yrði um að ræða verulega breytingu í þá átt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur talað fyrir. Ég hafna þess vegna þeim ummælum hans að verið sé að gera ráð fyrir í máli okkar að meira og minna verði ástandið óbreytt. Það er ekki þannig sem við hugsum það og framkvæmdin verður ekki þannig.