132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

grunnskólar.

447. mál
[20:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Um þessa pólitísku stefnu Sjálfstæðisflokksins, að gefa heimild til einkarekinna grunnskóla nánast frjálsa og gefa út óútfylltan tékka á öll sveitarfélögin í landinu hvað þetta varðar, er djúpstæður pólitískur ágreiningur í landinu. Hann er búinn að vera lengi og það er leitt til þess að vita að Framsóknarflokkurinn skuli nú lagstur í duftið með samstarfsflokki sínum, Sjálfstæðisflokknum, og skuli nú draga þennan vagn með Sjálfstæðisflokknum alla leið.

Við erum ekki búin að bíta úr nálinni með þetta ákvæði sem hér er verið að leiða í lög og von mín er sú að hægt verði að vinda ofan af þessu slysi sem allra, allra fyrst. Ég segi nei.