132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

651. mál
[20:34]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á þskj. 1396, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umr.

Í 16. gr. frumvarpsins er m.a. kveðið á um skyldu tilkynningarskyldra aðila til að láta lögreglu í té upplýsingar. Í tengslum við þá grein íhugaði nefndin að setja inn sambærilegt ákvæði og um getur í áliti nefndarinnar í 556. máli (frumvarpi til laga um breytingu á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit) sem lýtur að því að hafi upplýsinga verið aflað um aðila án þess að honum sé kunnugt um það skuli upplýsa hann um það strax og rannsóknarhagsmunir leyfi og eigi síðar en fimm árum eftir að upplýsinga var aflað. Eins og fram kemur í umræddu áliti varð það þó niðurstaða nefndarinnar að heppilegra væri að slík breyting yrði gerð á samræmdan hátt um öll eftirlitsstjórnvöld sem heimild hafa til slíkrar upplýsingaöflunar. Þá var þess getið að í 88. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, væri að finna ákvæði af þessu tagi varðandi hleranir. Með hliðsjón af þessu leggur nefndin eindregið til að farið verði í heildarendurskoðun hvað þetta atriði varðar við fyrsta tækifæri.

Þá er nefndin sammála um að nauðsynlegt sé að fram fari endurskoðun á skilgreiningu hugtaksins „hryðjuverk“ eins og það er nú skilgreint í almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Bent hefur verið á að núverandi skilgreining sé of víð. Mikilvægt sé að hún taki á engan hátt til lýðræðislegs andófs og verði þannig á kostnað almennra mannréttinda.

Undir framhaldsnefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Guðjón Ólafur Jónsson, Birgir Ármannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Sigríður Ingvarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Lúðvík Bergvinsson.