132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

vegabréf.

615. mál
[20:45]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér þykir leitt að þurfa að tefja þessa afgreiðslu mála en ég vil ekki taka þátt í atkvæðagreiðslunni án þess að fá upplýsingar um ákveðin atriði sem mér skilst að ekki hafi verið fjallað um fyrr í sambandi við þetta mál og væri glaður ef það yrði þá leiðrétt á hinn jákvæða veg og bið hv. formann allsherjarnefndar eða hæstv. dómsmálaráðherra að svara því hvernig þessi mál snúa að Íslendingum sem búsettir eru fjarri heimahögum. Nú er hér verið að breyta reglum um þær upplýsingar sem fram koma, m.a. með því að hin almenna regla á að vera sú að starfsmenn dómsmálaráðherra taki myndir af fólki. Að vísu eru gerðar undantekningar þar á, það má senda rafrænar upplýsingar, t.d. myndir með stafrænum hætti.

Það er líka verið að stytta gildistíma almennra vegabréfa úr tíu árum í fimm. Þetta kemur illa við þá Íslendinga sem dveljast langdvölum erlendis. Það er ekki bara í grannlöndunum eða Evrópulöndum sem svo háttar til um heldur líka t.d. í arabaheiminum eða í Suður-Ameríku o.s.frv. Ég vil gjarnan fá upplýsingar um hvernig þetta snýr að þeim áður en þetta verður hér til endanlegrar afgreiðslu.