132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

réttarstaða samkynhneigðra.

340. mál
[20:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er alveg ástæða til þess að fagna þeim áfanga sem hér er að nást þegar við horfum fram á að samkynhneigðir koma til með að geta búið við sama rétt og aðrir þegnar í samfélaginu. Það er þó eitt sem ég gat um í ræðu í gær sem mig langar til að nefna við þetta tækifæri þegar við erum að ljúka afgreiðslu á þessu máli. Það heyrir upp á okkur. Við þurfum að sjálfsögðu að taka það fram í stjórnarskrá okkar að óheimilt sé að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Að mínu mati er mikilvægt að það náist í gegn í þeirri nefnd sem nú er að störfum og ég læt í ljósi þá von að svo verði og að sú nefnd fari nú að skila af sér sem fyrst stjórnarskrá sem verði fyrir alla Íslendinga, líka samkynhneigða.