132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

grunnskólar.

447. mál
[21:20]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil undirstrika að hér erum við að ræða afar merkilegt og brýnt mál sem snertir hagsmuni allra sem koma að skólakerfinu, ekki síst barnanna okkar.

Umboðsmaður barna var spurður, að mér var tjáð, fyrir menntamálanefnd hvort þetta mál ætti að ná fram að ganga eða bíða fram á næsta ár. Svarið var alveg hreint og klárt: Þetta verður að fara í gegn. Þetta á að fara í gegn. Og af hverju? Af því að hagsmunir barnanna eru í húfi. Hagsmunir foreldra eru einnig í húfi.

En enn og aftur skýla vinstri flokkarnir, stjórnarandstaðan, sér, í þetta sinn á bak við sveitarfélögin, til að dylja afstöðuleysi sitt og andúð. Í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar hefur berlega komið í ljós andúð á gömlum og góðum menntastofnunum sem hafa sannað gildi sitt fyrir íslenskt samfélag. Þær hafa þvert á móti undirstrikað jöfnuðinn í íslensku mennta- og skólakerfi. (Gripið fram í.) Við erum að tala um Ísaksskóla, um barnaskóla Hjallastefnunnar (Gripið fram í.) og Landakotsskóla.

Ég er að draga fram staðreyndir m.a. sem komu fram við meðferð málsins. Ég hlýt að fá til þess tækifæri eins og aðrir hv. þingmenn. Málið er mikilvægt. Það er mikilvægt að koma þessu í gegn til þess að við getum haldið áfram að stuðla að auknum gæðum, fjölgun tækifæra (Gripið fram í.) og aukinni fjölbreytni í skólakerfinu. (Gripið fram í.) Til þessa verða hv. þingmenn að taka afstöðu. Segi þeir nei má túlka það svo að þeir séu á móti einkaskólum.