132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

umferðarlög.

503. mál
[21:54]
Hlusta

Frsm. minni hluta samgn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987. Frumvarpið er á þingskj. 735 og er 503. mál þingsins.

Þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir fjalla margar um aukið umferðaröryggi og er minni hlutinn sammála þeim flestum og telur þær skref í rétta átt, margar hverjar löngu tímabærar.

Í 9. gr. frumvarpsins er hins vegar byggt undir heimildir Vegagerðarinnar til að viðhafa aukið eftirlit með ökutækjum o.fl. Lagt er til að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði veitt aukið vald til að stöðva akstur farmflutninga- og hópbifreiða, banna frekari för þeirra og krefjast upplýsinga og gagna, án aðkomu lögreglunnar, og kalla til lögreglu til frekari úrvinnslu málsins síðar.

Minni hlutinn er á móti þessum auknu heimildum Vegagerðarinnar og því tvöfalda flókna kerfi sem hér er verið að auka og festa í sessi. Þetta kerfi mun verða flókið og þunglamalegt í framkvæmd. Minni hlutinn telur frekar þörf á að einfalda kerfið og gera það skilvirkara.

Bæði í umsögnum um frumvarpið og hjá gestum sem komu á fundi nefndarinnar voru gerðar verulegar athugasemdir við það fyrirkomulag sem 9. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir. Jafnframt bárust nefndinni undirskriftalistar frá aðilum í verktaka- og þungaflutningastarfsemi þar sem breytingunum er mótmælt.

Í störfum nefndarinnar kom fram að fram undan er heildarendurskoðun á umferðarlögum. Minni hlutinn leggur mikla áherslu á að við þá endurskoðun verði þessi mál skoðuð afar vel. Tryggt verði að umferðareftirlit á vegum landsins verði einfaldað og dregið úr hinu tvöfalda eftirliti sem nú ríkir og verið er að auka með samþykkt 9. gr. frumvarpsins.

Fram til þess tíma að heildarendurskoðun laganna fer fram leggur minni hlutinn áherslu á að ríkislögreglustjóri og Vegagerðin hafi mikla og góða samvinnu um umferðareftirlit á vegum landsins. Horft verði til þess fyrirkomulags sem áður gilti í þeim efnum.

Einnig er í frumvarpinu lögð til 100% hækkun á umferðaröryggisgjaldi. Minni hlutinn telur að skattheimta ríkissjóðs á bifreiðaeigendum sé þegar allt of mikil og leggst því enn fremur gegn þessari auknu skattheimtu ríkisstjórnarinnar á bifreiðaeigendur.

Undir nefndarálitið rita auk mín Anna Kristín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Guðjón A. Kristjánsson.

Þess má geta að hv. þm. Jón Bjarnason, sem situr sem áheyrnarfulltrúi í samgöngunefnd, er sammála þessu nefndaráliti.

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í þessu nefndaráliti eru flestallar greinar frumvarpsins þannig að um þær ætti að vera fullt samkomulag. Þær snúast um að auka umferðaröryggi og skjóta stoðum undir frekara eftirlit eins og t.d. með ökuritum og ökuskífum. En það er fyrst og fremst 9. gr. sem við gerum verulegar athugasemdir við eins og kom fram í nefndarálitinu og er það rökstutt og stuðst við fjölmargar umsagnir sem bárust nefndinni svo og umkvartanir ýmissa sem komu sem gestir á fundinn.

Áður en ég fer yfir nokkur af þeim erindum sem bárust og umsagnir um 9. gr. vil ég taka nokkur dæmi sem geta komið upp í þessu sambandi. Það er auðvitað alveg til í dæminu að vegagerðareftirlitið, eða vegagerðarlöggan eins og sumir kalla það, geti stoppað bíl, skoðað hann og séð ekkert athugavert og hleypt honum áfram. Eftir nokkrar mínútur gæti hann þess vegna mætt lögreglunni sem þá gæti tekið bílinn til skoðunar eða það sem er enn verra ef maður snýr þessu við, að lögreglan mætti bíl, stoppaði hann til að gera athugasemdir og skoða t.d. farm eða heildarþunga en sér ekkert athugavert og hleypir honum áfram. Eftir smástund gæti vegagerðarlögreglan, vegagerðareftirlitið, stoppað viðkomandi bíl, gert athugasemdir við heildarþunga bílsins og hvernig farmurinn er á bílnum og stöðvað hann — viðkomandi bílstjóri verður að hlíta því að vera stöðvaður þar sem hann er og þess vegna í vegarkanti þjóðvegarins, en á mörgum stöðum er nú ekkert svakalega mikið um útskot og stæði til að fara út af með þessa stóru og miklu bíla — og kallað á lögregluna sem áður var búin að sleppa bílnum. Vegagerðareftirlitið gæti kallað hana til og beðið hana að koma til að sjá um lögregluþáttinn í málinu. Svona flókið getur þetta kerfi orðið.

Annað dæmi má taka. Ef vegagerðarlögreglan eða eftirlitið stoppar bíl, við skulum segja bara uppi á miðjum Möðrudalsöræfum, þá verður viðkomandi bílstjóri að hlíta þeirri ákvörðun og stoppa bílinn og bíða þar til lögregla verður kölluð á staðinn sem kæmi þá annaðhvort frá Húsavík eða Egilsstöðum. Þetta er nú það kerfi sem hér er verið að setja upp, þetta er tvöfalt kerfi, þ.e. lögreglan og lögreglubílar á ferðinni, Vegagerðin á vegagerðarbílum á ferðinni við að skoða suma af þessum sömu þáttum.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að enginn annar en lögreglan hefur heimild til að stöðva bíla t.d. til að taka áfengissýni eða annað slíkt. Þannig er þetta tvöfalda kerfi sem sett er hér upp fyrir utan það óhagræði og þá vitleysu sem er í kringum þetta. Þar að auki eru margar umsagnir sem vara við þessari breytingu vegna þess að það er skýrt í lögreglulögum að enginn annar en lögreglan hefur þær heimildir sem þarf til að framfylgja þessum málum enda var varað við þessu. Í fjölmörgum umsögnum sem bárust nefndinni er fjallað um þetta. Ég ætla fyrst að grípa niður í umsögn sem barst frá ríkislögreglustjóra og er undirrituð af Steinari Adolfssyni, löglærðum fulltrúa, en þar segir m.a. um 9. gr., með leyfi forseta:

„Í umsögn um frumvarpsdrögin setti ríkislögreglustjórinn fram þá skoðun sína að það eftirlit sem ákvæðið fjallar um eigi alfarið að vera í höndum lögreglu sem fer með rannsóknar- og ákæruvald. Það var áréttað að margar aðgerðir sem verið er að fela eftirlitsmönnum vegagerðarinnar eru í eðli sínu lögregluaðgerðir sem varða ætluð brot á umferðarlögum og reglugerðum sem settar eru á grundvelli laganna. Í því sambandi var einnig vísað til athugasemda lögreglustjórans í Reykjavík um frumvarpsdrögin.“

Í umsögn sem barst frá sýslumanninum á Selfossi, Ólafi Helga Kjartanssyni, segir m.a. um 9. gr., með leyfi forseta:

„Í 9. gr. frumvarpsins sem breytir þeirri 68. í umferðarlögunum er skynsamlegt að hafa skýrt ákvæði í 1. málsgrein sem heimilar lögreglu að taka ökutæki sem bersýnilega uppfyllir ekki skilyrði til að teljast í lögmæltu ástandi úr umferð og sömu afleiðingu ætti það að hafa að neita að færa ökutæki til skoðunar.“ Síðan kemur lokamálsgreinin: „Varðandi lokamálsgreinina virðist eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar fengið nánast lögregluvald sem er á skjön við lögreglulög nr. 90/1996 en í 9. gr. þeirra eru þeir greindir með tæmandi talningu sem fara með lögregluvald. Afar óheppilegt er að misskilningur kunni að skapast um það hvar vald liggur. Sama kynni að mega lesa úr 4. málsgreininni.“

Í umsögn ríkissaksóknara um umrædda 9. gr. segir svo, með leyfi forseta:

„Í 9. gr. frv. frumvarpsins er m.a. að finna ákvæði um auknar heimildir Vegagerðarinnar til að framfylgja eftirliti með afmörkuðum þáttum. Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvæðið en rétt er að leggja áherslu á að almennt verði farið varlega í að veita öðrum stofnunum en lögreglu rannsókn refsiverðra brota. Lögregla getur, með öflun sérþekkingar og sérstakra tækja, sinnt flóknum málum á ýmsum sérsviðum.“

Landssamband lögreglumanna sendi ítarlega greinargerð og fylgdi máli sínu vel eftir en Páll E. Winkel, framkvæmdastjóri félagsins, kom á fund nefndarinnar og fjallaði um það. Ég get því miður ekki á lokadögum þingsins, virðulegi forseti, lesið þá greinargerð alla sem er mjög ítarleg, greinargóð og skýrir sjónarmið þeirra og sýnir fram á eins og aðrar umsagnir hversu varhugavert og allt að því vitlaus þessi 9. gr. er. Ég vísa til umsagnar Landssambands lögreglumanna sem fjallar m.a. um umrædda grein lögreglulaga. Umsögnin er skýr um það hverjir hafa það vald sem við erum hér að tala um en erum að útdeila til annarra á annan hátt.

Virðulegi forseti. Ég gat þess í nefndarálitinu að skrifleg mótmæli hafi borist frá fjölmörgum eigendum flutningafarartækja, vörubíla og annarra. Ef ég man rétt voru það um 1.000 undirskriftir. Sömu aðilar sendu líka umsögn til samgöngunefndar þar sem þeir gera grein fyrir sjónarmiði sínu og taka ýmis dæmi eins og dæmið sem ég tók um að hægt væri að stoppa bíl uppi á fjöllum, uppi á öræfum eða einhvers staðar, kalla til lögreglu sem ef til vill væri tvo, þrjá eða fjóra tíma að komast á viðkomandi stað svo hægt væri að klára málið. Þeir gagnrýna þetta mjög og vara við þessu tvöfalda kerfi. Sama má segja um Landssamband vörubifreiðastjóra sem fjallar um þetta mál og gagnrýnir það.

Ég gat þess líka, virðulegi forseti, að við gerum athugasemdir við þá grein þar sem umferðaröryggisgjaldið er hækkað um 100%. Í umsögn frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda er þetta mál rakið og fjallað um það sem nýlega kom fram í svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi um heildarskatttekjur ríkissjóðs af bifreiðanotkun og bifreiðainnflutningi tíu ár aftur í tímann þar sem m.a. kemur fram að heildarskatttekjur ríkissjóðs af umferð voru 47 milljarðar kr. á árinu 2005. En til vega og Vegagerðarinnar var varið ríflega 13 milljörðum kr. Þessar skatttekjur hækkuðu um tæplega 25% frá árinu 2004. Þarna er sem sagt lagt til að hækka umferðaröryggisgjaldið um 100% eða ná sér í vasa í bifreiðaeigenda 35–40 millj. kr., nýjar, til að setja í þetta. Nú er ég ekki, virðulegi forseti, að gagnrýna með þessu að auknu fé verði varið til Umferðarstofu til að framfylgja þeim málum sem þeir eiga að gera. Þeir peningar eru þegar til í ríkissjóði og ætti að nota í það verk sem þarna er án þess að hækka þennan skatt.

Ég sagði það líka áðan, virðulegi forseti, að lögreglustjórinn í Reykjavík hafi bent á vankantana á 9. gr. og þeir vitna líka í þau lög sem ég hef hér gert að umtalsefni og gagnrýna að vegaeftirlitsmönnum sé fengið þetta vald.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir nokkrar umsagnir sem bárust nefndinni út af málinu og þessum vondu greinum í frumvarpinu og ég vil ítreka það enn einu sinni að sú för sem hér er verið að fara, að festa þetta í sessi, er alveg með ólíkindum að skuli vera farin af ríkisstjórnarflokkunum, svo ekki sé talað um það sem boðað var að samgönguráðuneytið ætli að beita sér fyrir því að umferðarlögin verði endurskoðuð núna og komi væntanlega til þings á næsta þingi. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við teljum að það hefði mátt halda í það kerfi sem var, þar sem var samstarf ríkislögreglustjóra og Vegagerðar, þar sem einn lögreglumaður og einn vegaeftirlitsmaður voru í hverjum bíl og fóru um landið í þetta eftirlit.

Ég ítreka það líka, virðulegi forseti, að við segjum í nefndaráliti að við teljum að það eigi að einfalda þetta kerfi og það mætti alveg hugsa sér að gera þannig að lögreglunni verði gert kleift að hafa bæði bifreiðar og tækjabúnað, þekkingu og annað til að fylgjast m.a. með hleðslu bíla, sem þeir hafa náttúrlega í dag. Þeir stoppa auðvitað bíla sem þeir sjá með ólöglega hleðslu, ég tala nú ekki um og kannski það sérstaklega sem Vegagerðin er að sækjast í, þ.e. eftirlit með heildarþyngd bifreiða. Því það er auðvitað mjög alvarlegt brot þegar bifreiðar eru hafðar of þungar og keyra um þjóðvegi landsins og skemma þá og skapa m.a. umferðarhættu vegna skemmda á malbiki og öðru. En þetta tel ég að lögreglan geti alveg hiklaust framkvæmt eins og hver annar og það eigi að vera þáttur lögreglunnar að fylgjast með þessum þætti eins og öðrum þáttum sem þeir fylgjast með í umferðinni þegar þeir fara um þjóðvegi landsins.

Virðulegi forseti. Það er komið að lokum þessa þings og mörg mál bíða. Ég hefði sannarlega viljað að þetta mál hefði komið fyrr til umræðu og þá hefði verið hægt að fara betur yfir það og rökstyðja málflutning okkar betur með tilvitnun í umsagnir sem komu og sýna kannski enn betur fram á hversu vitlaust þetta er.

Virðulegi forseti. Það eru kannski þessar tvær greinar sem við gerum sérstaklega athugasemdir við. Vinnan í nefndinni var ágæt, það var farið yfir þetta og ég hygg að á ákveðnum tímapunkti hafi menn verið farnir að sjá hversu slæmt þetta var en því miður var haldið áfram og málið klárað á þann hátt.