132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

umferðarlög.

503. mál
[22:30]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um nauðsyn á að auka öryggi á vegum. Vegir eru allt of mjóir og oft og tíðum of veikburða til að bera mikla og þunga flutninga. Við höfum staðið saman að því að hvetja til að koma aftur á strandsiglingum sé þess nokkur kostur. Við stöndum saman í því og ég er honum hjartanlega sammála. Þeim atriðum í þessu frumvarpi sem lúta að öryggismálum almennt er ég sammála.

Hins vegar gerði ég að umtalsefni 9. gr. þar sem vegaeftirlitsmönnum er gefin heimild til að stöðva ökutæki, beita að hluta til lögregluaðgerðum án þess að borgarinn njóti réttar síns. Sá sem beitir stöðvunarákvæðinu hefur engan rétt til að krefjast þess. Hann getur ekki tekið skýrslu og getur ekki staðið við það sem hann er að gera. Sé einhver vafi á réttarfarslegri heimild eða lögregluheimild þá má hann ekki gera neitt og viðkomandi verður þá að kalla til lögreglu, sem getur tekið lengri tíma. Viðkomandi verður að mæta á næstu lögreglustöð til að gefa skýrslu löngu seinna, eftir að atburðurinn á sér stað. Borgarinn, eða sá sem á hlut að máli, fær ekki að fara þá réttarfarslegu leið til að gæta hagsmuna sinna sem eðlileg gæti talist.

Ég vildi leggja áherslu á þetta og vara við því. Ég tek undir aðvörunarorð Landssamband lögreglumanna og reyndar líka ríkissaksóknara um að ekki eigi að færa lögregluvald til venjulegra vegaeftirlitsmanna.