132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[22:51]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, þ.e. um opinber hlutafélög og sérreglur sem gilda um þau. Ég ætla stuttlega einungis að fjalla um 2. gr. frumvarpsins.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir breytingu á 63. gr. laganna sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Við kjör í stjórn opinbers hlutafélags skal gæta sérstaklega að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“

Af því tilefni fletti ég upp, frú forseti, í jafnréttislögunum og velti því fyrir mér hvað það væri í þeirri löggjöf sem ætti að gæta sérstaklega að við kjör í stjórn opinbers hlutafélags. Eftir greininni má ætla að hugsunin sé sú að tryggja með einhverju móti að konur og karlar skipist sem jafnast í stjórnir slíkra félaga. Þegar maður skoðar nánar þau lög sem skal gæta sérstaklega að ber maður fyrst niður í markmiðsgrein jafnréttislaganna þar sem segir að markmiðið sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla. Það segir jafnframt að allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika og er talið upp í liðum a–g hvaða markmiðum eigi að ná.

Í b-lið segir að vinna eigi að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu og í d-lið er talað um að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu.

Mér finnst í rauninni, frú forseti, þessi tilvísun í 2. gr. frumvarpsins ekki hafa neitt efnislegt innihald, sama hvar ég ber niður í umræddri jafnréttislöggjöf. Ef maður skoðar markmiðsgreinina og síðan þetta eins og það er orðað get ég ekki séð að það sé efnisinnihald í 2. gr. frumvarpsins.

Síðan er líka fróðlegt að skoða IV. kafla laganna sem fjallar um bann við mismunun á grundvelli kynferðis þar sem segir að hvers konar mismunun eftir kynferði, hvort heldur er bein eða óbein, sé óheimil. En síðan segir í 2. mgr. 22. gr. að heimilar séu sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna og líka að aðrar aðgerðir til að auka möguleika kvenna eða karla sérstaklega til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna gangi heldur ekki gegn lögunum.

Ég tel að þetta eigi við í þessu tilviki. Þetta eru lög sem Alþingi hefur sett sér sem hafa þetta markmið og þetta eru grunnlögin um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Því tel ég að í annarri löggjöf sem Alþingi hefur tök á að ná þessum markmiðum fyrir sitt leyti, þó að það sé einungis bundið við hlutafélög sem eru opinber, annaðhvort í eigu ríkis eða sveitarfélaga, þá sé óhjákvæmilegt annað — ef Alþingi ætlar að vera sjálfu sér samkvæmt — en að kveða sterkar að orði en gert er í 2. gr. frumvarpsins.

Þegar þetta er haft á orði, að kveða eigi sterkar að orði að þessu leyti, heyrir maður gjarnan að pólitísk sannfæring sumra stjórnmálamanna sé sú að þetta sé rangt á þeirri forsendu að rangt sé að konur skipi stjórnir til jafns við karla eingöngu út á kynferði sitt. Þessu ætla ég að leyfa mér að mótmæla vegna þess að í þessu felst að það séu ekki jafnmargar hæfar konur og karlar í samfélaginu til að skipa stjórnir. Ef maður gefur sér hins vegar að jafnmargar hæfar konur séu og karlar, þá standast þessi rök heldur ekki af því að þá er það ekki kynferðið sem ræður heldur hæfnin sem er jöfn.

Ákveðin nefnd, frú forseti, hefur fjallað sérstaklega um þetta, svokölluð tækifærisnefnd sem hv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra setti á fót á síðasta ári. Ég tek fram að við skulum ekki rugla saman annars vegar hlutafélögum í einkaeigu, einkageiranum, og hins vegar opinberum hlutafélögum, en það eru bara þau sem við erum að tala um núna. Þessi tiltekna nefnd lagði ekki til, ekki nefndin sem heild, að setja neinn kvóta eða neina slíka lögbundna reglu um einkageirann en hún fjallaði ekki sérstaklega um opinbera geirann. Þar tel ég, með vísan til jafnréttislaganna sem Alþingi hefur sett, óhjákvæmilegt að Alþingi fylgi jafnréttislögum og kveði sterkar að orði um opinber hlutafélög.

Þrátt fyrir að sú nefnd, tækifærisnefndin, hafi ekki sérstaklega lagt þetta til þá setur hún á nokkrum síðum í ágætri skýrslu sinni — og ég tek fram að sú sem hér stendur var ein af þeim sem skipuðu þá nefnd — það sem kallast innlegg í umræðuna. Þar er m.a. að finna viðurkenningu á því að af öllum þjóðum heims standa Norðmenn sig best, af þeim sem settu kvóta, nota bene ekki bara um opinber hlutafélög heldur um öll norsk fyrirtæki. Þetta er eftirtektarverð staðreynd henni hefur ekki mikið verið haldið á lofti. Jafnframt segir að talsverð samstaða virðist vera hérlendis um að kvótaleiðin sé hvorki vænleg né áhugaverð. Og síðan er tekið fram að Noregur hafði náð mestum árangri með því að setja kvóta.

Frú forseti. Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:

„Viðmælendur ræddu talsvert um mikilvægi þess að lífeyrissjóðir og opinberi geirinn gengju á undan með góðu fordæmi. Á meðan staðan hjá þessum aðilum væri ekki betri en raun ber vitni væri ekki hægt að setja pressu á einkageirann.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Þó svo að óþarft sé að deila um gildi og mikilvægi þess að fjölga konum í stjórnum lífeyrissjóða og hjá hinu opinbera þá var það einnig skoðun margra viðmælenda að viðskiptalífið ætti að taka frumkvæðið í þessum efnum og órökrétt að bíða eftir opinberum stofnunum.“

Afstaða nefndarinnar, sem ekki vildi setja í lög kvóta um fyrirtæki almennt, var þó sú — a.m.k. hluta þeirra viðmælenda sem nefndin vísar til — að eðlilegt væri að opinberi geirinn tæki frumkvæðið og væri öðrum fordæmi að þessu leyti.

Margt annað fróðlegt kemur fram í skýrslunni og ég ætla að árétta það enn og aftur að nefndin fjallaði ekki sérstaklega um konur eða fjölgun kvenna í opinberum hlutafélögum heldur var það einkageirinn sem hún var að fjalla um en það gilda allt önnur sjónarmið í rauninni um þetta. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, og ákvað að gera bara þessa einu grein að umtalsefni í umræðunni, að óeðlilegt sé anað en að við kveðum sterkar að orði í 2. gr. frumvarpsins. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé að kveða á um einhvers konar kvóta. Það hafa margir sett sig gegn því að talað sé um kvóta í þessu sambandi og í raun ekki hægt að tala um kvóta þegar fólk er annars vegar. En ég tel óhjákvæmilegt annað en að breyta ákvæðinu og að það hafi efnislegt innihald og hljóði eitthvað í þá veru að það sé tryggt að hlutur kvenna og karla sé eins jafn og oddatala stjórnarmanna leyfir.

Ég vildi, frú forseti, gera grein fyrir þessari afstöðu minni í umræðunni. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en geri ráð fyrir að á milli 2. og 3. umr. muni ég leggja fram breytingartillögu sem að þessu lýtur.