132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

varnir gegn fisksjúkdómum.

596. mál
[23:13]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um varnir gegn fisksjúkdómum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga gesti sem greint er frá í nefndarálitinu og eins hafa umsagnir borist frá þó nokkrum aðilum sem einnig er greint frá þar.

Frumvarpið er afrakstur heildarendurskoðunar á lax- og silungsveiðilögunum en með frumvarpinu er verið að setja í sérlög ákvæði um varnir gegn fisksjúkdómum sem nú eru í lögum um lax- og silungsveiði, nr. 70/1976, en ekki eru þó gerðar neinar verulegar efnisbreytingar á þeim. Hlutverki fisksjúkdómanefndar er þó nokkuð breytt þar sem henni er nú ætlað ráðgjafarhlutverk en samkvæmt núgildandi lögum er nefndin sjálfstætt stjórnvald. Frumvarpið er flutt samhliða frumvarpi til laga um Veiðimálastofnun, frumvarpi til laga um fiskrækt, frumvarpi til laga um eldi vatnafiska og frumvarpi til laga um lax- og silungsveiði.

Við umfjöllun nefndarinnar var rætt um forgöngu um fisksjúkdómarannsóknir. Samkvæmt núgildandi lögum skal fisksjúkdómanefnd hafa forgöngu um fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varna gegn útbreiðslu fisksjúkdóma og annað er að fisksjúkdómum lýtur. Með þeirri breytingu sem gerð er á hlutverki og stjórnsýslustöðu fisksjúkdómanefndar tekur Landbúnaðarstofnun við því hlutverki að hafa forgöngu um framangreindar rannsóknir.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Lögð er til breyting á 1. gr. þannig að tekið sé fram í markmiðsgreininni að markmið laganna sé einnig að vernda lífríki lagardýra. Nefndin telur þó að taka verði sérstaklega fram að eingöngu er um að ræða lagardýr sem eru alin upp í eldisstöð á landi eða í sjó.

2. Þá leggur nefndin til breytingar á 3. gr. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 10. tölul. um hafbeit. Misræmi var á milli skilgreiningarinnar annars vegar og hins vegar skýringa á hugtakinu. Breytingin er eingöngu orðalagsbreyting á skilgreiningunni. Í öðru lagi er lögð til breyting á 22. tölul. á þá leið að villtur fiskstofn verði skilgreindur sem fiskstofn þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum. Framangreind breyting er til samræmis við þá skilgreiningu sem kemur fram í frumvarpinu um lax- og silungsveiði.

3. Lagðar eru til breytingar á 4. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lögð til sú breyting á 2. mgr. að fellt sé brott að „rannsóknardeild fisksjúkdóma“ í Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum tilnefni einn aðila í fisksjúkdómanefnd. Breytingin lýtur eingöngu að því að ekki sé tilgreind nein deild heldur eingöngu tilvísun til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Í öðru lagi leggur nefndin til að 3. mgr. um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna falli brott. Telja verður að ákvæðið sé óþarft þar sem í 11. gr. er almennt ákvæði um reglugerðarheimildir og nægilegt að kveðið sé á um það í þeirri grein.

4. Þá leggur nefndin til að bætt verði við 10. gr. sem fjallar um viðbrögð við sjúkdómum og sníkjudýrum í veiðivatni eða fiskeldisstöð að hafa verði hliðsjón af lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þau lög taka til eldisfiska og getur landbúnaðarráðherra samkvæmt þeim lögum að fengnum tillögum Landbúnaðarstofnunar fyrirskipað nauðsynlegar ráðstafanir í ákveðnum tilvikum vegna dýrasjúkdóma. Enn fremur eru þar mun ítarlegri ákvæði m.a. um refsingar ef fyrirmælum laganna er ekki fylgt og um bótarétt til handa þeim er verða fyrir tjóni. Nefndin bendir því á að skoða verði framangreint ákvæði með hliðsjón af lögum um dýrasjúkdóma, nr. 25/1993. Ákvæði 10. gr. getur þó átt við þar sem um er að ræða minni háttar tilvik sem ekki þarfnast eins mikilla ráðstafana og áskilið er í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

5. Lagt er til að við 1. mgr. 11. gr. verði bætt að haft verði samráð við Veiðimálastofnun og erfðanefnd landbúnaðarins við gerð reglugerðar. Þar sem komið geta upp tilvik þar sem framangreindar stofnanir eða þær sem nú eru nefndar í 11. gr. frumvarpsins tengist ekkert þeirri reglugerð sem á að setja er því æskilegt að setja inn í greinina orðalagið „eftir því sem við á“.

6. Lagðar eru til breytingar á 13. gr. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 2006 í stað 1. júní 2006 og í öðru lagi að gerðar verði breytingar á lögum um Landbúnaðarstofnun, nr. 80/2005, og lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, nr. 50/1986, til að lagfæra tilvísanir í lögunum og samræma þau við breytt hlutverk fisksjúkdómanefndar.

7. Að lokum er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða þannig að einum fulltrúa frá Félagi eigenda sjávarjarða verði bætt við samráðsnefndina og með því komi fleiri hagsmunaaðilar að henni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Gunnar Örlygsson, Guðmundur Hallvarðsson, Jón Bjarnason, Guðjón Ólafur Jónsson og Valdimar L. Friðriksson.