132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

lax- og silungsveiði.

607. mál
[23:19]
Hlusta

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá landbúnaðarnefnd um frumvarp til laga um lax- og silungsveiði.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila og umsagnir hafa einnig borist frá fjöldanum öllum af bæði einstaklingum og stofnunum sem getið er um í nefndaráliti því sem hér liggur fyrir.

Frumvarp þetta er liður í heildarendurskoðun laga um lax- og silungsveiði, nr. 70/1976. Ætlunin er að einfalda löggjöfina og gera hana skýrari og aðgengilegri. Samhliða frumvarpi þessu eru til meðferðar fjögur frumvörp sem fjalla um málaflokka sem nú eru hluti af lögum um lax- og silungsveiði en talið er að fari betur að hafa í sérstökum lögum, eftir efni og innihaldi. Frumvarp til nýrra laga um lax- og silungsveiði er þungamiðja framangreindra frumvarpa en frumvörp til laga um fiskrækt, eldi vatnafiska, Veiðimálastofnun og varnir gegn fisksjúkdómum koma því til fyllingar og stuðnings.

Nefndin leggur til ýmsar breytingar á frumvarpinu að teknu tilliti til gagnlegra athugasemda frá umsagnaraðilum.

Mikil umræða var í nefndinni um netaveiði og sjónarmið um hvort banna ætti netaveiði í straumvatni eða í byrjun veiðitímans eða takmarka hana í hverri viku. Nefndinni bárust nokkrar ábendingar og tillögur um breytingar á frumvarpinu í þá veru. Í þessu sambandi bendir nefndin á að mikil vinna fór fram hjá þeirri nefnd sem kom að samningu frumvarpsins. Í þeirri vinnu var mikil áhersla lögð á að finna málamiðlanir og ná sátt varðandi helstu ágreiningsatriði. Frumvarpið felur ekki í sér breytingar á reglum um netaveiði frá því sem nú er. Netaveiði er hverfandi en fara verður með gát og telur nefndin mikilvægt að hagsmunaaðilar komist sjálfir að samkomulagi um hvernig best sé að haga reglum um netaveiði og leggur því til breytingar á ákvæði til bráðabirgða I, um samráðsnefnd sem skipuð er til fimm ára. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að fjalla um framkvæmd laganna og fylgifrumvarpanna og vera samstarfs- og samráðsvettvangur þeirra aðila sem lagaframkvæmdin helst varðar og fylgjast með og stuðla að greiðri lagaframkvæmd og virkum skoðanaskiptum. Nefndin leggur áherslu á að samkomulag náist um netaveiði meðal hagsmunaðila og tillögur komi frá þeim fremur en að löggjafinn setji slíkar takmarkanir á eignaréttindum með hugsanlegri bótaskyldu ríkisins.

Það má geta þess að það er ýmislegt að gerast jákvætt í þessum efnum nú einmitt þessa dagana.

Nefndin ræddi þó nokkuð um 40. gr. frumvarpsins, er varðar atkvæðisrétt í veiðifélögum, og ólík sjónarmið sem komu fram á fundum nefndarinnar. Við samningu frumvarpsins var reynt að koma á víðtækri sátt um fyrirkomulag atkvæðisréttar og gerir nefndin ekki tillögur um breytingar. Nefndin telur þó mikilvægt að árétta að þrátt fyrir að heimilt sé að kveða á um í samþykktum veiðifélags að ákvarðanataka fari eftir einingu í arðskrá þá gildir ávallt meginreglan í 1. mgr. um að eitt atkvæði gildi fyrir hverja jörð þegar um er að ræða breytingar á samþykktum. Þannig er minnihlutaverndin sem í meginreglunni felst áfram tryggð.

Nefndin áréttar að ekki er um tæmandi talningu að ræða í ákvæði 2. mgr. 41. gr. á þeim atriðum sem taka má tillit til við arðskrárgerð og útilokar ákvæðið því ekki að líta megi til sérstakra aðstæðna á hverjum stað. Í þessu sambandi mætti nefna að hægt er að taka tillit til friðunarsvæða skv. 3. mgr. 15. gr. Helstu atriðin eru nefnd sérstaklega í 2. mgr. 41. gr. en önnur atriði eru háð mati hverju sinni. Ekki er heppilegt að niðurnjörva í lagatexta öll sjónarmið sem geta komið upp þar sem afstaða manna getur breyst og ný sjónarmið komið til sögunnar.

Verður nú gerð nánari grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar:

1. Lögð er til orðalagsbreyting á 1. gr.

2. Nefndin leggur til að bætt verði við 3. gr. skilgreiningu á framkvæmd í veiðivatni. Einnig er lögð til breyting á skilgreiningunni á hafbeit í 22. tölul. en misræmi er á milli skilgreiningarinnar og þess sem kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu. Ekki er um að ræða efnislega breytingu.

3. Lögð er til breyting á 5. gr. á þá leið að tekið verði út að með ábúð á jörð fylgi heimild til „ráðstöfunar“ veiðiréttar. Breytingin er til samræmis við 37. gr. þar sem kveðið er skýrt á um að ráðstöfun veiðiréttar er á hendi veiðifélags eftir að það hefur verið stofnað og að öllum sé óheimil veiði í vatninu á félagssvæðinu nema með heimild frá félaginu.

4. Nefndin leggur þá til orðalagsbreytingu við lokamálslið 2. mgr. 11. gr. um ófriðun sels að notað verði orðalagið „ófriðun selláturs“ eins og gert í núgildandi lögum í stað „eyðingu selláturs“ eins og gert er í frumvarpinu.

5. Lagt er til að við 13. gr. verði því bætt að upplýsingar úr veiðiskýrslu skuli einnig vera aðgengilegar öðrum rannsóknar- og ráðgjafaraðilum en ekki Veiðimálastofnun eingöngu. Nefndin telur æskilegt að aðrir rannsóknar- og ráðgjafaraðilar hafi einnig aðgang að þessum gögnum.

6. Lagðar eru til breytingar á 15. gr. Í fyrsta lagi er sú breyting lögð til á 3. mgr. að í stað þess að miða við 2.000 metra frá ósi straumvatns, sem fiskur gengur í, án tillits til rennslismagns, skuli viðmiðunin vera 1.500 metrar frá ósi straumvatns þar sem meðalvatnsmagn ár er innan við 25 m³ á sekúndu en 2.000 metrar ef vatnsmagn er meira. Einnig megi ekki leggja net né hafa ádrátt í sjó nær en 1.500 metrum frá hafbeitarstöð. Framangreindar breytingar eru til samræmis við núgildandi lög. Nefndin leggur þó til að gangi lax í straumvatn megi þó aldrei leggja net né hafa ádrátt nær ósi en 2.000 metra. Í öðru lagi er lögð til breyting á 5. mgr. þannig að bætt verði við orðunum „þar sem ekki eru veiðifélög“ á eftir veiðiréttarhafa. Nefndin telur framangreinda breytingu vera í samræmi við önnur ákvæði í frumvarpinu og taka af allan vafa um að einstakir rétthafar geti ekki sett fram beiðni til Landbúnaðarstofnunar um takmörkun eða bann samkvæmt ákvæðinu nema ekki sé starfandi veiðifélag á svæðinu.

7. Þá er lögð til sú breyting á 17. gr. að almenna reglan um veiðitíma lax verði 105 dagar í stað 90 daga eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Samkvæmt núgildandi lögum er almenna reglan 105 dagar og leggur nefndin til að hún verði óbreytt. Nefndinni bárust margar ábendingar þess efnis og telur rétt að koma til móts við þær.

8. Nefndin leggur til að við 23. gr. bætist nýr málsliður um að veiðifélagi sé heimilt, með samþykki Landbúnaðarstofnunar, að setja aðrar reglur um veiðar í námunda við fiskvegi. Nefndin telur mikilvægt að meginreglan sé skýr um að ekki megi veiða eða styggja fisk í fiskvegi innan ákveðinnar fjarlægðar. Framangreind breyting verður því undantekning þar sem eðlilegt getur verið að sérstök sjónarmið eigi við um tiltekið veiðivatn vegna aðstæðna þar. Jafnframt er þessi breyting í anda þeirrar stefnu að veita veiðifélögum meira forræði í eigin málefnum.

9. Lagt er til að 55. gr. frumvarpsins falli brott. Ákvæðið er óþarft þar sem almenn ákvæði laga um Landhelgisgæslu Íslands fjalla um þetta, sbr. a-lið 1. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 25/1967.

10. Þá er lagt til að frumvarpið taki gildi 1. júlí 2006 í stað 1. júní.

11. Lögð er til viðbót við 58. gr. frumvarpsins er varðar breytingar á lögum um Landbúnaðarstofnun, nr. 80/2005, lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002, og lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973. Með breytingunum eru lagfærðar tilvísanir til laganna þar sem ekki er lengur um að ræða ein heildarlög.

12. Að lokum eru lagðar til breytingar á ákvæði til bráðabirgða I. Í fyrsta lagi er lagt til að ný málsgrein bætist við ákvæðið á þá leið að samráðsnefndin skuli innan 18 mánaða frá gildistöku laganna, og í samráði við hagsmunaaðila, móta framtíðarstefnu um netaveiði á laxi og silungi og skila tillögum þar að lútandi til landbúnaðarráðherra eftir atvikum í formi lagafrumvarps. Í öðru lagi leggur nefndin til að einum fulltrúa frá Félagi eigenda sjávarjarða verði bætt í samráðsnefndina og með því komi fleiri hagsmunaaðilar að henni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Margrét Frímannsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita hv. þingmenn Drífa Hjartardóttir, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Gunnar Örlygsson, Guðmundur Hallvarðsson, Jón Bjarnason, Guðjón Ólafur Jónsson og Valdimar L. Friðriksson.