132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

lax- og silungsveiði.

607. mál
[23:29]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í pontu til þess að víkja að frumvarpinu og einkum 40. gr. þess, um atkvæðisrétt í veiðifélagi. Samkvæmt ákvæðum laga þessara og því sem fram kemur í frumvarpinu hagar þannig til að á félagssvæði veiðifélaga fylgir hverri jörð sem veiðirétt á, einungis eitt atkvæði.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að jarðir eiga mjög mismikinn rétt að laxveiðiám og öðrum fallvötnum, þ.e. landareignir jarða að fallvötnunum eru mjög misjafnar, sumar jarðir hafa mikil lönd meðfram laxveiðiám. Víðast hafa verið stofnuð veiðifélög um laxveiðiár og þá er það svo að vegna náttúrulegra aðstæðna eru veiðistaðir í einni á kannski mun fleiri við eina landareign en aðra. Ég hygg að skoða þurfi hvernig þessi atkvæðisréttur nýtist, t.d. þar sem tveir eða þrír jarðeigendur eiga land að á þar sem kannski um 60–70% af veiðinni fer fram og þar sem landmiklar jarðir eru meðfram ánni, en samt sem áður hefur hver jörð ekki nema eitt atkvæði og reyndar ekki nema eitt saman ef jarðirnar hafa verið sameinaðar.

Þetta hygg ég að þurfi að skoða, hæstv. forseti, þótt það náist ef til vill ekki nú á þeim stutta tíma sem er til umráða til að fara yfir málið. En skipting nytja úr laxveiðiám getur orðið óeðlileg til lengri tíma litið, einkum þar sem nú færist sífellt í vöxt að jarðir séu ekki setnar, þ.e. ekki í byggð heldur í eign manna sem ekki endilega búa á viðkomandi löndum og jörðum, og þá kann vissulega að koma upp sú staða að þeir landeigendur sem mestar eignir eiga í viðkomandi á og þar sem megnið af veiðinni er tekið, fái í raun og veru engu ráðið um nýtingu jarðanna í samræmi við nytjar sínar vegna þess að sumar jarðanna eru kannski landlitlar að ánni eða ekki með liggjandi land að ánni þar sem veiðin fer að stærstum hluta fram og merktir veiðistaðir eru við ána.

Ég hygg að huga þurfi að réttindum þessa minni hluta með einhverjum hætti. Í 40. gr. er reyndar einnig lagt til að hægt sé að miða við annað vægi, t.d. arðskrá, en mér sýnist hins vegar að meginreglan sé sú að það skuli vera eitt atkvæði fyrir hverja jörð og að þeir sem í minni hluta eru fái því litlu eða engu ráðið um að breyta slíku. Þess vegna velti ég fyrir mér, hæstv. forseti, og vil spyrja framsögumann nefndarinnar, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, hvort það hafi verið rætt að uppi sé ágreiningur um nytjar og ráðstöfun veiðileyfa þar sem margir aðilar eiga land að á og hvort það hafi verið skoðað að minnihlutaeigendur sem koma með tillögur um breytingar á aðgengi manna, t.d. í veiðifélagi þar sem félagsmenn vilja hafa forgöngu að rétti sínum í ánni, geta það ekki vegna þess eignarfyrirkomulags sem er á atkvæðisréttinum. Þar ræður hópurinn því leigunni og leigukjörum sem þróast þá ef til vill á þann veg að hinn almenni félagsmaður í veiðifélagi sem á kannski tvær jarðir við viðkomandi á er settur til hliðar vegna verðlagningar á ánni en viðkomandi veiðifélag fær engu ráðið um að láta félagsmenn sína hafa forgang að því veiðisvæði sem tilheyrir þessum jörðum.

Þess vegna hef ég velt fyrir mér, hæstv. forseti, og mun væntanlega koma með þá breytingu síðar inn í þingið, hvort sem það verður á næsta hausti eða síðar, að athugað verði hvort hægt sé að koma viðbótarákvæði fyrir í þessari lagagrein. Þar hef ég í huga ákvæði um að séu fleiri en einn jarðeigandi við á þar sem veiðifélag er og ákveðin veiði fer fram, þ.e. tveir, þrír eða fleiri, þá geti þeir gert kröfu til þess að fá sjálfir að útdeila sínum parti veiðileyfanna og þeim skuli vera heimilað það. Og þó að hinu hefðbundna fyrirkomulagi á leigu laxveiðileyfa í ánni verði ekki breytt strax á fyrsta ári en haldi menn slíkri kröfu fram um tveggja ára skeið þá skuli þeir eiga rétt til þess að veiðileyfunum verði skipt í hlutfalli við landareign og veiðirétt eða veiðiafla sem úr ánni kemur.

Ég held að menn ættu að hugleiða þetta ákvæði vegna þess að það er auðvitað ekki ásættanlegt til langframa að ef menn hafa stofnað veiðifélag og keypt jarðir við á, kannski fyrir áratugum síðan og eru með sitt veiðifélag og vilja hafa forgang að þeim veiðileyfum sem hlutfallslega eiga að falla til þeirra, þá fái þeir engu um það ráðið vegna þess að atkvæðið tilheyrir hverri einstakri jörð og þeir eru í minni hluta í fjölda jarðeigenda. En það kunna að vera ýmis önnur ákvæði sem ættu að vega þungt eins og land sem liggur að viðkomandi á eða veiðimagn eða veiðistaðir.

Þetta held ég að þurfi nauðsynlega að athuga vegna þess að það er auðvitað ekki ásættanlegt fyrir minni hluta að verða alltaf að beygja sig undir ákveðinn meiri hluta þó svo að rök hnígi til þess að menn vilji hafa forgang í gegnum félag sitt að veiðileyfum í ánni án þess að þurfa að vera að kaupa það á þeim, sem ég vil leyfa mér að segja, uppsprengda uppboðsmarkaði sem er á veiðileyfum í laxveiðiám í dag.