132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

lax- og silungsveiði.

607. mál
[23:42]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil ósköp vel að menn hafi gert samkomulag um ákveðna niðurstöðu í þessu nefndarstarfi. Því verður að sjálfsögðu ekki breytt rétt í lok þessarar umræðu þegar búið er að semja um hvernig frágangur mála skuli vera við lok þessa þings. En ég lýsi þeirri skoðun minni að með tilliti til þess hvernig þessi 40. gr. mun reynast sé eðlilegt að koma með tillögu um að vægi manna til að ná fram breytingum verði tekið til skoðunar. Við fáum auðvitað fljótlega dýrmæta reynslu af því.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum segja að það er óviðunandi að minni hluti, sem á kannski meiri hluta af jarðnæði við á og meiri hluta þess svæðis sem laxveiðin gefur og af því magni sem veiðist úr ánni, geti engu ráðið um það að ráðstafa veiðileyfum til félagsmanna sinna án þess að þurfa að lúta um ár og síð og alla tíð, eins og sagt er, valdi þeirra sem flestar jarðirnar eiga burt séð frá nytjum árinnar og hagsmunum félaga í viðkomandi veiðifélagi sem vilja kannski fá að veiða sjálfir í ánni.