132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

lax- og silungsveiði.

607. mál
[23:48]
Hlusta

Gunnar Örlygsson (S):

Frú forseti. Nú liggur fyrir sameiginlegt nefndarálit allra nefndarmanna landbúnaðarnefndar um frumvarp til laga um lax- og silungsveiði. Það sem hefur kannski einkennt þetta einstaka frumvarp er ágreiningur sem reis upp er varðar netaveiðina, hvort takmarka ætti rétt bænda til netaveiða í ám eða ekki. Fóru fram fjörlegar umræður um einmitt þetta mál í nefndinni og voru margir gestir kallaðir til.

Þeir sem voru á þeirri skoðun að takmarka ætti netaveiðina báru það fyrst og fremst fyrir sig að verðmæti stangveidds lax séu langtum meiri en lax sem veiddur er í netum. Vísa ég þar til ferðaþjónustunnar og þess uppgangs sem verið hefur í ferðaþjónustunni tengdur stangveiði síðustu 20–30 ár. Þeir báru það líka fyrir sig að í efnahagslegum skilningi væri það hollráð að reyna að finna leiðir til að takmarka netaveiðina. Með því mundi myndast hvati á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár sem leiða mundi til öflugs ræktunarátaks t.d. í uppám Árnessýslu, uppbygginu veiðihúsa, gerð sleppitjarna o.s.frv.

Þessi rök voru að vísu samþykkt af öllum nefndarmönnum en rök þeirra sem aftur á móti töldu að Alþingi ætti ekki að breyta þessum hlutum voru á þá vegu, og að vísu skiljanleg, að eignarrétturinn væri mjög sterkur hjá bændum, hefðin væri mjög rík og þar af leiðandi væri skásti kosturinn sá að ná fram frjálsum samningum á milli bænda og hagsmunaaðila um kaup á upptöku neta. Ég get svo sem fallist á þau rök. Hitt er annað að í störfum nefndarinnar náðu stjórnarliðar og stjórnarandstaðan saman í þessu máli að öllu leyti, þó svo að eftir standi kannski einhverjar spurningar en sú samþykkt sem allir kvittuðu fyrir er á þá vegu að nefnd 11 fulltrúa, bæði hagsmunaaðila, stangveiðimanna sem og bænda og ýmissa ráðuneyta, mun þurfa að skila af sér tillögum innan 18 mánaða frá því að lögin taka gildi og niðurstöðu um framtíðarstefnumótun um netaveiðar á Íslandi og þá eftir atvikum í formi lagafrumvarps.

Öll þessi umræða vakti nokkra athygli í fjölmiðlum og menn tóku almennt við sér. Er því kannski gleðiefni að minnast á það sem gerst hefur í kjölfarið en ég veit ekki hvort öllum þingmönnum er kunnugt um það. Í fyrsta lagi að á aðalfundi Veiðifélags Árnesinga, sem nær utan um allt vatnasvið Ölfusár og Hvítár sem er eitt stærsta vatnasvæði á landinu ef ekki það stærsta og glæsilegasta, var ákveðið fyrir skemmstu að seinka niðurlagningu neta um eina viku eða frá 20. júní til 27. júní. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að stórlaxinn á þá greiðari leið til uppánna og gleður það margan veiðimanninn að þessi staðreynd sé raunin. Í annan stað ber að minnast á þátt Stangaveiðifélags Reykjavíkur og Landssambands stangaveiðimanna en þeir hafa nú þegar, með mikilli vinnu sem ber að virða, náð samningum við tvo bændur á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár en þessir tveir bæir áttu samtals um 15% af þeirri heildarveiði sem skilaði sér með netum árið 2005. Nú veit ég til þess að tveir bæir til viðbótar hafa mikinn áhuga á því að semja við Stangaveiðifélag Reykjavíkur einnig en þeir eru með sams konar hlutfall af netaveiðinni eða um 15%.

Þar fyrir utan hef ég fyrir því nokkuð áreiðanlegar heimildir að menn vilji ganga að samningaborðinu strax að hausti, fyrir utan þessa fjóra bæi, þannig að hugsanlegt er að innan skamms tíma megi þingheimur og landsmenn og stangaveiðimenn ekki síst búast við að netaveiði á vatnasvæði Ölfusár og Hvítár verði í mjög lítilli mynd miðað við það sem er í dag. Þetta er áfangasigur fyrir stangaveiðimenn og íslenska ferðaþjónustu að mínu mati.

Það hefur komið fram í þessum umræðum að helmingur tekna bænda á Vesturlandi komi til vegna stangveiðinnar. Með öðrum orðum er stangveiðin mikilvægasta búgreinin í landbúnaði á Vesturlandi. Ég held að öll þessi umræða á Alþingi svo ekki sé minnst á málefnaþing sem Landssamband stangaveiðimanna hélt fyrir skemmstu hafi kannski vakið margan manninn af værum blundi, gert honum grein fyrir því hversu mikilvæg grein þetta er fyrir íslenska ferðaþjónustu, fyrir byggðir landsins og ekki síst bændur og um leið kannski aukið þá virðingu sem okkar ómetanlegi laxastofn á svo sannarlega skilið. Sú tegund er á lista yfir dýr í útrýmingarhættu í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið.

Ég er sáttur við niðurstöðu nefndarinnar. Ég nefndi áðan þessa 11 manna nefnd sem hefur þá lögbundnu skyldu að skila af sér stefnumótun í þessum málum til framtíðar innan 18 mánaða og jafnvel í frumvarpsformi. Ég trúi því að þau sterku rök sem fylgja netaupptöku muni leiða veginn í því starfi og að á endanum verði fundinn flötur sem mun tryggja að netaveiði í íslenskum ám leggist alfarið af. Það er skoðun mín, frú forseti, að netaveiði sé tímaskekkja en að sama skapi virði ég gamlar hefðir og gamla siði og vil í því sambandi benda á ákveðna hugmynd sem ég nefndi í þessu sambandi, sem er að hugsanlega mætti heimila netaveiðar eina helgi yfir sumartímann og gera þá helgi túristavæna þar sem gamlir siðir og gamlar hefðir væru í hávegum hafðar og fólk gæti fylgst með.

Þær breytingar eða þeir áfangar sem þegar hafa komið fram í þessu máli munu strax leiða til þess hvata að hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu tengdri stangaveiði munu hugsanlega ráðast í öflugt ræktunarátak í uppám Árnessýslu. Nægir þar að nefna til að mynda Stóru-Laxá í Hreppum, Litlu-Laxá, Tungufljót, Dalsá og auðvitað Sogið. Ekki skal heldur gleyma að stangveiði í jökulvatni er að aukast. Menn eru almennt farnir að líta á stangveiði í jökulvatni sem skemmtilegan kost og öfluga ferðaþjónustu og tel ég þann vettvang eiga eftir að aukast til muna.

Frú forseti. Umfram allt vil ég þakka formanni nefndarinnar fyrir mjög góð störf. Hún tók af skarið í þessu máli þegar stefndi í mjög mikinn ágreining og lagði til þessa lausn á málinu, að skipa nefnd sem skila verður af sér tillögum innan 18 mánaða. Á það gat ég fallist og á það gátu aðrir nefndarmenn sem voru á mínu máli fallist og tel ég það vera mjög góða niðurstöðu. En umfram allt tel ég þetta vera góða lendingu þó að enn standi eftir nokkrar spurningar. Þetta mál hefur verið til tals í áratugi en ég tel þetta vera áfangasigur að svo komnu og býst ekki við neinu nema góðu hér eftir.