132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[00:48]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, lögum um meðferð opinberra mála og lögum um fjarskipti. Nefndin hefur fengið til sín fjölmarga aðila vegna málsins eins og fram kemur í nefndaráliti. Umsagnir bárust jafnframt víða að en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga á grundvelli samnings Evrópuráðsins um tölvubrot frá 23. nóvember 2001 sem undirritaður var fyrir Íslands hönd þann 30. sama mánaðar. Frumvarpið miðar annars vegar að því að samræma almenn efnisskilyrði í refsilöggjöf og tengdri löggjöf að landsrétti á sviði tölvubrota og hins vegar að því að innleiða réttarfarsreglur svo hægt sé að rannsaka og saksækja einstaklinga fyrir slík afbrot auk annarra afbrota sem framin eru í gegnum tölvukerfi eða með rafrænum hætti.

Nefndin ræddi á fundum sínum refsiréttarleg álitaefni frumvarpsins og m.a. þá leið sem lögð er til í frumvarpinu að setja almennt ákvæði um refsiábyrgð lögaðila vegna brota á almennum hegningarlögum. Kom fram á fundum að samkvæmt samningnum væri aðildarríkjunum skylt að gera kleift að leggja refsiábyrgð á lögaðila vegna ákvæða samningsins. Var talið að þar sem brot sem ákvæði 2.–9. gr. samningsins taka til væru þegar refsiverð í almennum hegningarlögum væri réttast að leggja til að almennt ákvæði um refsiábyrgð lögaðila vegna brota á almennum hegningarlögum bættist við lögin að fyrirmynd Dana, þó með nokkuð breyttri útfærslu og fellst nefndin á það sjónarmið. Þá kom einnig fram á fundum að það væri að verða mun algengara að alþjóðasamningar kvæðu á um skyldu aðildarríkja til að taka upp ákvæði er heimila refsiábyrgð lögaðila. Telur nefndin rétt að taka skýrt fram að refsiábyrgð lögaðila er bundin almennum skilyrðum II. kafla A almennra hegningarlaga en þar kemur fram að refsiábyrgðin sé almennt háð persónulegri refsiábyrgð, þ.e. að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman og ólögmætan verknað.

Nefndin ræddi einnig skilgreiningu 9. gr. samningsins á barnaklámi. Í frumvarpinu er lagt til að skilgreining barnakláms nái ekki yfir tilbúið efni, svo sem teiknimyndir og efni sem sýnir einstakling, sem lítur út fyrir að vera ólögráða barn, í kynferðislegum athöfnum, sbr. 4. mgr. 9. gr. samningsins sem heimilar aðildarríkjunum að undanþiggja m.a. þessi efnisákvæði samningsins. Var því sjónarmiði hreyft fyrir nefndinni að ganga hefði átt lengra í að skilgreina barnaklám en gert er í frumvarpinu og að ekki hefði átt að nýta heimildir samningsins til að undanþiggja nein ákvæði samningsins þar sem slíkt klámefni væri tilvísun í barnaklám og til þess fallið að ýta undir kynferðislegar hneigðir til barna. Telur nefndin að í ljósi þeirra markmiða sem legið hafa til grundvallar refsiákvæðum um barnaklám í íslenskri refsilöggjöf og lúta að því að auka vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun séu ekki nægileg refsiréttarleg rök til að gera t.d. refsivert að hafa í fórum sínum slíkt efni. Þá telur nefndin einnig skipta máli hversu erfitt sé að skilgreina hvað átt er við með þessum ákvæðum og því sé erfitt að framfylgja slíku Því telur nefndin ekki ástæðu til að útvíkka ákvæðin að þessu leyti. Kom fram að Danir hafa einnig gert þessa fyrirvara. Auk þess sem á fundum nefndarinnar kom fram að í viðbótarbókun við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem gengur lengst í að uppræta barnaklám, kemur fram bann við hvers kyns framsetningu á barni sem tekur þátt í kynferðislegum athöfnum og gengur út frá því að barnið sé þátttakandi í brotinu. Nefndin telur rétt að taka fram að unnt er að afturkalla þá fyrirvara sem samningurinn heimilar aðildarríkjunum að gera hvenær sem er og telur nauðsynlegt að fylgst verði með þróun löggjafar í öðrum löndum á næstu árum og því hvernig aðildarríkin aðlaga sína refsilöggjöf að skilgreiningu samningsins.

Eins og fram kemur í nefndaráliti var jafnframt rætt um réttarfarsleg ákvæði frumvarpsins sem lúta að varðveisluskyldu fjarskiptafyrirtækja. Í því samhengi kom fram að þær röksemdir sem búa að baki ákvæðinu væru að auðvelt væri að eyða gögnum og því nauðsynlegt að hafa fljótvirk og skilvirk úrræði til að tryggja varðveislu þeirra. Á þetta sjónarmið fellst nefndin. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að varðveisluskyldan vari í eins stuttan tíma og hægt og ekki lengur en í 90 daga. Því sjónarmiði var hreyft að 90 daga reglan væri óþarflega löng. En þau tímamörk munu vera í samræmi við samninginn og því ekki unnt að stytta tímann frekar en það. Ástæða er til að leggja áherslu á að samkvæmt þeim málsmeðferðarákvæðum sem gilda um starfsemi lögreglu þurfa fyrirmæli lögreglu að vera ákveðin, skýr og rökstudd og að henni er skylt að fylgja meðalhófsreglu og aflétta varðveisluskyldu strax og unnt er. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að lögregla þurfi að afla dómsúrskurðar til þess að fá gögnin afhent frá fjarskiptafyrirtækjunum.

Nefndin ræddi einnig ákvæði frumvarpsins um þagnarskyldu starfsmanna fjarskiptafyrirtækis um allar aðgerðir sem gripið er til samkvæmt tilmælum lögreglu um aðstoð við rannsókn sakamáls. Samkvæmt frumvarpinu skulu tilmæli lögreglu styðjast við lagaheimild eða dómsúrskurð. Var því sjónarmiði hreyft fyrir nefndinni að ákvæðið væri óþarft þar sem kveðið er á um þagnarskyldu í öðrum lögum. Telur nefndin því rétt að taka fram að ákvæði frumvarpsins um þagnarskyldu starfsmanna varða ekki þau atriði sem fjallað er um í öðrum lögum, heldur þær aðgerðir lögreglu sem lagðar eru til í frumvarpinu. Því er ljóst að nauðsynlegt er að lögfesta sérstakt ákvæði um þá skyldu.

Nefndin ræddi ákvæði frumvarpsins um hlerun og telur nauðsynlegt að fjarskiptafyrirtæki setji sér verklagsreglur m.a. um meðferð beiðna, aðgang að upplýsingum um hlerun o.fl. í samræmi við lög um meðferð persónuupplýsinga.

Mikilvægt er að hafa í huga varðandi þetta mál að það er lagt fram á þinginu til að uppfylla þjóðréttarlegar skyldur og nefndin telur að fljótlega þurfi að meta hvort ekki eigi að fara fram heildarendurskoðun á ákvæðum hegningarlaga um tölvubrot. Í þeirri endurskoðun ætti þá m.a. að huga að því hvort ákvæði á borð við 228. gr. hegningarlaga geti verið undirorpið opinberri ákæru samkvæmt kröfu þess sem misgert hefur verið við, en um þetta var nokkuð rætt á fundum nefndarinnar.

Ég vil að lokum geta þess að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Þó gerðu hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson og Björgvin G. Sigurðsson fyrirvara á nefndaráliti.