132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[00:56]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil lýsa vonbrigðum með þá ákvörðun meiri hluta allsherjarnefndar og ríkisstjórnarinnar að beita þessum svokallaða fyrirvara varðandi 9. gr. samningsins. 9. gr. samningsins gerir ráð fyrir að skilgreining á barnaklámi sé aðeins víðara en nú er, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Í „barnaklámi“ felst, að því er varðar 1. mgr. hér að framan, klámefni sem sýnir:

a) ólögráða barn sem hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;

b) manneskju sem virðist vera ólögráða barn og hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg;

c) raunsannar myndir sem tákna ólögráða barn sem hefur uppi háttsemi sem er greinilega kynferðisleg.“

Ég hefði talið réttara og eðlilegra að við hefðum ekki beitt þessum fyrirvara um að taka þetta ekki inn í okkar rétt. Ég tel að skilgreining á barnaklámi eigi að ná til svona mynda sem eru raunsannar en geta verið tölvuteiknaðar eða samsettar. Sömuleiðis tel ég að skilgreining á barnaklámi eigi einnig að ná til manneskju sem er látin virðast vera ólögráða barn.

Þetta náðist ekki í gegn og ég vil lýsa sárum vonbrigðum yfir því m.a. vegna þess að verndarhagsmunirnir hér á bak við eru að sjálfsögðu öll börn en ekki það einstaka barn sem er misnotað við gerð barnaklámsins.

Ég skil því ekki af hverju meiri hlutinn var ekki tilbúinn að fara þá leið eins og samningurinn gerði ráð fyrir. Ég held að þetta muni einnig gera baráttuna gegn barnaklámi erfiðari en ella þar sem óljóst getur verið um t.d. aldur viðkomandi einstaklings sem látinn er taka þátt í barnaklámi. Tækninni hefur fleygt það mikið fram að tölvutæknin gerir það kleift að jafnvel er hægt að búa til myndir sem mjög erfitt er að greina að séu tölvuteiknaðar, þ.e. það sé ekki raunverulegt barn þar á bak við. Og síðan höfum við það þegar myndir eru samsettar með einhverjum hætti.

Við sjáum að bæði Barnaheill og Barnaverndarstofa eru á því að ekki eigi að beita þessum fyrirvara. Í umsögn Barnaheilla stendur, með leyfi forseta:

„Samtökin eru ósátt við það að samningsmenn frumvarpsins hafa ákveðið að nýta sér ákvæði b- og c-liðar 2. mgr. 9. gr. samnings Evrópuráðsins um tölvubrot. Þó svo að börn séu almennt ekki þátttakendur (og því ekki eiginlegir brotaþolar) í klámefni sem sýnir einstakling, sem lítur út fyrir að vera ólögráða barn, í kynferðislegum athöfnum og á raunsönnum myndum sem tákna ólögráða barn í kynferðislegum athöfnum, er slíkt klámefni tilvísun í barnaklám og til þess fallið að ýta undir kynferðislegar hneigðir til barna sem geta svo aftur valdið því að barn verði fórnarlamb kynferðislegrar misnotkunar. Í vissum tilvikum geta börn verið eiginlegir brotaþolar við gerð raunsannra mynda. Þegar mynd af höfði barns er til dæmis skeytt saman við fullorðinn líkama í kynferðislegum athöfnum, þá er það barn eiginlegur brotaþoli. Ef lögin eiga að veita fullnægjandi vernd gegn barnaklámi, þá verður að rýmka hugtakið barnaklám með þeim hætti sem b- og c-liður 2. mgr. 9. gr. samningsins greinir.“

Í umsögn frá Barnaverndarstofu segir, með leyfi forseta:

„Svo er nefnt að sú löggjafarstefna sem hafi verið mótuð með lögum nr. 126/1996 lúti beinlínis að refsivernd barna sem eiginlegra brotaþola og því standi ekki fullnægjandi rök til þess að rýmka hugtakið barnaklám. Barnaverndarstofa telur koma skýrt fram í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 126/1996 að stefna löggjafans hafi bæði verið að vernda börn sem brotaþola en einnig að móta skýra afstöðu gegn barnaklámi og draga úr áhuga og eftirspurn eftir barnaklámi. Með þessi markmið í huga telur Barnaverndarstofa mjög mikilvægt að lögfesta ákvæði b- og c-liðar 2. mgr. 9. gr. samningsins um tölvubrot, þ.e. að barnaklám taki til þess þegar klámfengið efni sýni einstakling sem líti út fyrir að vera ólögráða og þegar klámfengið efni sýni raunsannar myndir sem tákna eigi ólögráða börn í kynferðislegum athöfnum, enda sé hvort tveggja til þess fallið að viðhalda áhuga og eftirspurn eftir barnaklámi og auka hættuna á að börn verði beitt kynferðislegu ofbeldi almennt eða við gerð barnakláms. Markmið með ákvæði 9. gr. samningsins er að vernda börn með þessum hætti og Barnaverndarstofa telur engin rök standa til þess að íslenska ríkið hafi önnur markmið eða veiti börnum lakari vernd að þessu leyti.“

Ég vil taka undir þessi áhersluatriði sem koma fram í þessum umsögnum, bæði frá Barnaverndarstofu og Barnaheillum, og ég tel og ítreka það aftur að við hefðum átt að sleppa að beita þessum fyrirvara.

Við í allsherjarnefnd ræddum aðeins 4. mgr. sem í rauninni felur í sér þá breytingu að hægt er að beita úrræðum í lögum um meðferð opinberra mála í talsvert fleiri afbrotum en nú er. Verið er að breyta refsimarkinu sem þessi úrræði miðast við úr átta ára fangelsi í tveggja ára fangelsi. Þetta mun því taka til mun fleiri afbrota en núna eru uppi og að sjálfsögðu má alveg deila um hvort hér sé gengið hugsanlega of langt.

En við sjáum sömuleiðis, t.d. í umsögn Dagsbrúnar, að þeir telja að löggjafinn sé sífellt að seilast lengra og lengra hvað varðar friðhelgi einkalífs og persónufrelsi. Þeir nefna að ákveðið hefur verið á þessu þingi að hægt sé að fá IP-tölur án dómsúrskurðar, sömuleiðis er hægt að fá eiganda símanúmers án dómsúrskurðar. Síðan er í þriðja lagi hægt að fá útskrift um fjarskiptanotkun án dómsúrskurðar. Svo vitum við öll í þessum sal þegar hæstv. dómsmálaráðherra reyndi að koma í gegnum þingið frumvarpi sem laut að því að heimila símhleranir án dómsúrskurðar.

Við þurfum því að fara svolítið varlega í þetta allt saman. Sérstaklega þegar við drögum upp sögu núverandi ríkisstjórnar í persónuverndarmálum. Ef við tökum hvert skref og setjum þau í samhengi sjáum við alveg hvaða leið við erum að stefna.

Að lokum langar mig að minna á ítarlega og vel ritaða umsögn frá ríkissaksóknara sem kemur inn á mýmörg álitamál sem snerta þennan málaflokk og við endurskoðun þessara laga eða kafla væri ráð að nýta þá ítarlegu umsögn ríkissaksóknara sem kemur inn á mýmörg mál sem ekki er að finna í þessu frumvarpi.