132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[01:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta mál var tekið út úr allsherjarnefnd í morgun og ég verð að segja eins og er að ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þegar mér varð ljóst að allsherjarnefndin ætlaði sér að afgreiða málið svona út. Þá er ég að tala fyrst og fremst um 2. gr., þ.e. að nefndin leggur ekki til að við nýtum okkur þann fyrirvara sem heimilt er við 9. gr. samningsins sem hér um ræðir.

Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri skylda til þess á Alþingi Íslendinga að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hefta útbreiðslu barnakláms og undir það felli ég hiklaust það klám sem sýnir einstaklinga í kynferðislegum athöfnum sem virðast vera börn jafnvel þó svo að finna megi út með einhverjum rannsóknum að viðkomandi hafi náð 18 ára aldri og sömuleiðis varðandi teikningar eða tölvugerðar myndir þar sem greinilega er verið að ýta undir hneigðir til barna. Mér þykir sárgrætilegt að þingmenn á Alþingi skuli ekki leggja í eða freista þess að orða lagagreinina á þann hátt sem við höfum fulla heimild til samkvæmt samningnum og að menn skuli gefast upp fyrir einhverjum lagatæknilegum atriðum í þeim efnum. Ég verð að segja að mér finnst forkastanlegt að allsherjarnefnd skuli setja inn eftirfarandi setningu í nefndarálitið sitt. Mér finnst það lýsa svo mikilli uppgjöf gagnvart þessari brýnu baráttu gegn barnaklámi. Setningin úr nefndarálitinu sem fer í taugarnar á mér er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Telur nefndin að í ljósi þeirra markmiða sem liggja til grundvallar refsiákvæðum um barnaklám og lúta að því að auka vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun séu ekki nægileg refsiréttarleg rök til að gera t.d. refsivert að hafa í fórum sínum slíkt efni. Þá telur nefndin einnig skipta máli hversu erfitt sé að skilgreina hvað átt er við með þessum ákvæðum og því sé erfitt að framfylgja slíku og telur því ekki ástæðu til að útvíkka ákvæðin að þessu leyti.“

Frú forseti. Ég sagði að mér fyndist forkastanlegt að nefndin gæfist upp fyrir lagatæknilegum atriðum, teldi sig ekki finna hin refsiréttarlegu rök og ætti svo erfitt með að skilgreina hvað átt væri við. Barnaverndarstofa og Barnaheill hugsa okkur í þessum sal að sjálfsögðu þegjandi þörfina fyrir þessa uppgjöf. Mér finnast þetta kaldar kveðjur til þeirra sem berjast á þessum vettvangi fyrir fullri vernd barna gegn ofurefli, gegn klámiðnaðinum sem smeygir sér alls staðar inn á lymskulegan hátt, smeygir sér inn í gegnum sjónvarpstækin okkar í formi tónlistarmyndbanda sem börnin okkar horfa á í sjónvarpinu, myndbanda sem klámiðnaðurinn beinlínis framleiðir. Hann smeygir sér inn án þess að við áttum okkur á því í gegnum ólíklegustu staði, fataframleiðslu til dæmis. (Gripið fram í.) Alls staðar getum við átt von á því að þessir auðhringar sem reka klámiðnaðinn komi sér inn bakdyramegin hjá okkur. Mér finnst máttleysi allsherjarnefndar í þessu tilliti lýsa uppgjöf gagnvart klámiðnaðinum. Það er þyngra en tárum taki að maður skuli standa í ræðustól á Alþingi Íslendinga og þurfa að flytja ræðu af því tagi sem ég flyt hér.

Ég er áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd svo ég er ekki með sérálit í þessu máli og erfitt verður um vik að greiða atkvæði gegn greininni sem um ræðir, þ.e. 2. gr. sem lýtur að þeim ákvæðum sem hér um ræðir. Ég hefði sjálf viljað ná því að semja breytingartillögu og láta þá Alþingi fella hana. Ég hef hins vegar ekki komist í það í dag að semja slíka tillögu vegna anna við önnur mál því hér er unnið á þeim hraða sem veitir þingmönnum ekkert svigrúm til þess að sinna sinni vinnu svo að vel sé. En ég hef ekki gefið upp alla von. Vera kann að áður en dagur rís verði komin fram breytingartillaga. Ég á eftir að sjá Alþingi Íslendinga fella hana, tillögu sem mundi sjá til þess að allt það sem skilgreint er í samningnum sem barnaklám falli undir þessi lög en ekki bara hluti af því. Mér finnst forkastanlegt að sýna nokkra linkind eða uppgjöf í þessu máli og tel að við eigum að berjast fram í rauðan dauðann með öllum tiltækum ráðum og nýta allar þær heimildir og öll þau meðul sem við höfum til að leggjast á sveif með þeim sem berjast úti á akrinum. Að öðrum kosti erum við að liggja á liði okkar svo að ég segi ekki meira.