132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

Happdrætti Háskóla Íslands.

748. mál
[01:10]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að Happdrætti DAS og Happdrætti SÍBS verði heimilt að greiða út peningavinninga í flokkahappdrættum án þess að fellt sé niður einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands. Lagt er til að sett verði hámark á greiðslu happdrættisins vegna einkaleyfisins til ríkissjóðs til þess að koma til móts við þessa breytingu.

Nefndin telur að með breytingunni sem lögð er til í frumvarpinu sé í reynd ekki lengur um einkaleyfi að ræða til reksturs Happdrættis Háskóla Íslands heldur leyfi eða leyfisgjald vegna rekstursins og leggur því til breytingu á frumvarpinu sem og lögunum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir á þskj. 1374.