132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[01:23]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Enn einu sinni kemur fyrir þingið tillaga frá hæstv. fjármálaráðherra um að framlengja tímabundið 4 kr. afslátt á olíugjaldi. Enn einu sinni erum við að vinna slíka tillögu á síðasta degi þingsins þar sem búið er að gera ákveðið samkomulag og má ekki ræða hlutina mikið. Þetta er mjög bagalegt vegna þess að full þörf væri á að ræða málið enn einu sinni. Nú er ýmislegt að koma í ljós sem varað var við. Það er t.d. að koma í ljós að áætlaðar sölutölur á olíu eru ekki 80 millj. lítra heldur 120 millj. lítra. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs aukast því um 1,5 milljarða kr. vegna aukinnar sölu.

Þetta er enn eitt atriðið sem bætist við hina miklu skattheimtu. Við sjáum það á bensínstöðvum í dag hve lítill munur er á verði 95 oktana bensíns og olíu, þ.e. 4–5 kr. Upptaka olíugjalds átti að leiða til þess að olían yrði ódýrari og hagkvæmara væri að kaupa sér netta bíla með dísilvél og spara þannig. En eins og við vitum eru dísilbílar dýrari í innkaupum þannig að sparnaðurinn er ekki svo ýkja mikill.

Eins og ég hef áður gert lýsi ég yfir stuðningi við þessa lækkun en vildi þó hafa hana meiri. Ég vil því gera grein breytingartillögu sem hv. þingmenn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir og Lúðvík Bergvinsson flytja, en fyrsti liður hennar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„4. gr. orðist svo:

Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum, sbr. lög nr. 70/2005 og 126/2005, orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga þessara skal fjárhæð olíugjalds vera 35 kr. á hvern lítra af olíu frá gildistöku laga þessara til 31. desember 2006.“

Hið sama gildir um vörugjald af bensíni, gert ráð fyrir að það lækki líka niður í 3,28 kr. Þetta er í framhaldi af þeirri tillögu sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti í upphafi maímánaðar. Þar var boðið upp á fulla sátt til að keyra í gegn slíka lækkun, sem hefði þá þegar mikil áhrif á vísitölu neysluverðs og hefði ekki veitt af. Það boð var ekki þegið og þess vegna hafa hækkunaráhrifin farið út í vísitöluna.

Virðulegi forseti. Ég vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir með breytingartillögu þessara þingmanna á þskj. 1270.

Ég hef áður gert að umtalsefni aukningu á olíusölu sem gefur ríkissjóði töluvert meiri tekjur. Ég vil í lokin, vegna þess að ég benti á aðra leið í byrjun, fagna því sem þarna kemur fram, að veita björgunarsveitum afslátt og leyfa þeim að fara yfir á litaða olíu. Ég gagnrýndi þá þegar að þessir bílar ættu að fara á kílómetragjald, inn í þungaskattskerfi sem við töldum okkur hafa lagt niður en sem kemur sífellt meira inn bakdyramegin. Þungaskattskerfið er á öllum bílum sem eru 10 tonn og þyngri, öllum vöruflutningabílum og tengivögnum. En þarna á að bæta því við.

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að meðalkostnaður við að setja tæki í bílana til að mæla ekna kílómetra til greiðslu þungaskatts er um 70 þús. kr. á hvern bíl. Talið er að hjá björgunarsveitunum falli undir þetta um 200 bílar alls. Þar er um 14 millj. kr. að ræða. Mér finnst vitleysa að fara þessa leið og sagði það þegar við 1. umr. Ég benti hæstv. fjármálaráðherra á að ég teldi að skoða ætti hvort þetta mætti gera með svokölluðum GPS-kubbum sem íslenskt fyrirtæki er að þróa og komið langt með að framleiða. Væru slíkir kubbar settir í þessa bíla, séu þeir ekki þegar komið í marga þeirra, mundi fleira vinnast, þ.e. að hafa fullkomna staðsetningu en það mætti rukka eftir því.

Nú heyri ég að menn ætla að reyna að breyta þessu. Ég hafði sjálfur boðað breytingartillögu við þetta frumvarp, þ.e. að 2. gr. frumvarpsins falli út. Þeirri tillögu verður væntanlega dreift í fyrramálið. Hún er tilbúin að mér skilst úti á nefndasviði. Hún er sáraeinföld í raun og veru, þ.e. að 2. greinin falli út. Þar með segjum við bara að björgunarsveitarbílar skuli keyra á litaðri olíu og ekki greiða aðra skatta fyrir því. Það væri framlag samfélagsins til björgunarsveita í landinu, aukið framlag. Ég held að það ætti ekki að auka kostnað þeirra.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að það væri slæmt að þurfa alltaf að ræða þetta mál í skjóli nætur, á síðasta degi þar sem menn mega ekki fara djúpt í þessa umræðu og benda á þessi atriði. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að ég styð þessa tímabundnu lækkun. En ég hvet til þess að tillaga Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og fleiri hv. þingmanna verði samþykkt, um tímabundna lækkun sem mun líka hafa jákvæð áhrif á vísitölu neysluverðs. Svo hvet ég til að fundin verði almennileg lausn á þessu gagnvart björgunarsveitunum. Ég tel að besta lausnin sé að fella 2. gr. burt og hætta þeim áformum að láta setja mæla í bílana, fara að rukka þá um þungaskatt.