132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

ferðasjóður íþróttafélaga.

789. mál
[01:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get leyft mér að samfagna með hv. þingmanni að þingsályktunartillagan sem hann hefur borið fyrir brjósti nú í þrjá vetur skuli vera komin á þennan endasprett enda þótt það sé auðvitað kaldhæðnislegt í minningunni þegar það rifjast upp að hv. þingmaður lenti í að fella sams konar tillögu í umræðu um fjárlög fyrr vetur, en það er nú aukaatriði.

Það sem mig langar til að fylgi þessari tillögu inn í þá nefnd sem væntanlega verður skipuð um þetta mál er hugleiðing sem mér láðist að koma að í menntamálanefnd, enda var ég ekki viðstödd þegar málið var afgreitt þaðan. Það er hugsunin um vægi íþrótta borið saman við annað tómstundastarf ungmenna á Íslandi og þá á ég við í menningargeiranum. Við vitum að haldin eru kóramót á Íslandi, afskaplega kraftmikil og fjölmenn kóramót og við vitum líka að krakkar hafa samskipti landshorna á milli í dansi, leiklist og örugglega einhverju fleiru. Mér finnst tímabært og eðlilegt þegar við fjöllum um málefni af þessu tagi að íþróttirnar séu ekki alltaf í forgangi. Við verðum að viðurkenna að það er stór hluti barna sem eyðir tómstundum sínum í menningarstarf sem gefur alveg jafnmikið og hefur alveg jafnmikið forvarnagildi og er jafnþýðingarmikið að stundað sé af krafti. Við þurfum að hugleiða aðeins hvort slík starfsemi geti ekki falist í þessu og geti einhvern veginn farið saman í sama sjóði þó að hann yrði eitthvað útvíkkaður. Mig langaði einungis til að orða þessa hugsun hér í örfáum orðum.