132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

ferðasjóður íþróttafélaga.

789. mál
[01:51]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp aðeins örstutt til að lýsa yfir stuðningi mínum og fagna því að menntamálanefnd skuli hafa afgreitt þá þingsályktunartillögu sem hv. þm. Hjálmar Árnason og fleiri þingmenn hafa flutt undanfarin þrjú þing, þar á meðal sá sem hér stendur. Þetta er ákaflega brýnt og mikilvægt mál. Misrétti af ýmsum toga er auðvitað óþolandi eins og við höfum stundum rætt hér, eins og aðstöðumunur fólks, barna og annarra á að geta stundað íþróttir og tekið þátt í keppnum.

Ég vil líka geta þess að þetta virkar þannig að þegar íþróttafólk á höfuðborgarsvæðinu fer út á land fellur það auðvitað undir þennan sjóð. Mér er kunnugt um að Reykjavíkurborg setur pening í slíka styrki fyrir íþróttafélög í Reykjavík til að ferðast út á land. Það er gert á skilmerkilegan hátt þannig að það fordæmi er komið og því hægt að segja til um það hvernig þetta ætti að vera.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Hjálmar Árnason gat um áðan að mér finnst vanta, en tek fullt tillit til þess sem rætt hefur verið í menntamálanefnd og að hann sem framsögumaður nefndarinnar skuli leggja það fram, þ.e. ég hefði viljað sjá dagsetningu um það hvenær nefndin eigi að ljúka störfum og skila af sér, t.d. 1. október eða 1. nóvember, þannig að tillögur og annað slíkt verði tilbúið svo hægt sé að setja upphæðina á fjárlög næsta árs — við fjárlagagerð fyrir næsta ár þurfa tillögur að liggja frammi — og byrja þá á að setja pening í þetta þarfa og mjög góða mál.

Í trausti þess sem hér hefur verið sagt, að ætlunin sé að ljúka þessu á tilteknum tíma, þá ætla ég ekki að rugga bátnum, ef svo má að orði komast, með því að flytja tillögu um að setja hér inn dagsetningu en trúi því og treysti að málið verði unnið hratt og vel þannig að við sjáum árangur strax í næstu fjárlögum.