132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[02:02]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt innlegg. En ég verð þó að mótmæla því að hér sé um eitthvert metnaðarleysi að ræða. Hér er fyrst og fremst verið, það deilir enginn um það, að vinna að því að uppfylla Kyoto-samninginn. Það er nú bara svo ef við skoðum þann samning og það sem snýr að Íslandi að þá er sérstakt ákvæði fyrir Ísland. Það er í rauninni almennt ákvæði en á fyrst og fremst við Ísland af þeirri ástæðu að við erum svo lánsöm og höfum haldið hlutum þannig hér hjá okkur að ég held að um 70% orkunotkunar okkar sé endurnýjanleg orka og er það alveg einsdæmi í heiminum. Ég veit ekki til að önnur lönd séu með sambærilegt hlutfall.

Ef menn hafa áhyggjur af loftslagsmálum, sem er full ástæða til að hafa, þá er eðlilegt að menn líti á þetta í því samhengi sem þarf að gera. Það því miður þannig að þau lönd sem hafa undirgengist Kyoto eru bara með brot af þeim útblæstri sem er núna. Í þeim spám sem eru fyrir framtíðina varðandi orkunotkun þá held ég að gert sé ráð fyrir að á næstu 30 árum muni Kyoto-löndin, ef þannig má að orði komast, fara úr 25% í 13%. Það þýðir með öðrum orðum að jafnvel þó að öll Kyoto-löndin mundu hætta öllum útblæstri þá mundi það hafa lítið að segja í heildarsamhengi ef ekki verður eitthvað að gert. Það er stóri vandinn í þessu og að sjálfsögðu eigum við að ganga á undan með góðu fordæmi og það gerum við Íslendingar. Það getur enginn haldið neinu öðru fram. Það breytir því ekki að ef menn ætla að ná árangri í loftslagsmálum þá verða menn að taka á þeim á þeim vettvangi sem virkilega er þörf á.