132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[02:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki mjög frjó hugsun hjá hv. þingmanni að setja okkur á háan hest hvert gagnvart öðru. En við lendum sjálfsagt í því bæði tvö. Því það eru mjög svo deildar meiningar um hvernig við stöndum okkur í þessum efnum. Það hefur ekki tekist að sætta þau sjónarmið hér, hvorki í þessum sal né úti á akrinum hérna fyrir utan dyrnar eða austur á landi eða hvar svo sem er.

Hinar tölulegu staðreyndir eru auðvitað þær að Ísland er að taka á sig gríðarlega mikla mengun sem enginn bað Ísland um að taka á sig. Ísland hefði alveg getað tekið öðruvísi á málum í Kyoto og ákveðið að axla byrðarnar með Evrópusambandinu. En stjórnvöld ákváðu að gera það ekki. Þau ákváðu að fara aðra leið og það er auðvitað eðlilegt að þingmenn stjórnarflokkanna verji þá leið. En við verðum þá líka að hafa heimild til að andæfa fram í rauðan dauðann, við sem á sínum tíma mótmæltum að sú leið yrði farin. Við höfum okkar rök. Stjórnarliðar hafa sín rök. Þau rök hafa hingað til ekki verið sætt og við sættum þau ekki heldur hér.

En auðvitað þurfum við bæði, ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, að kynna okkur þessi mál vel og þekkja þau ofan í kjölinn og vita um hvað við erum að tala og halda rökfestu okkar í þeim efnum. En við höldum áfram að takast á um grundvallaratriði þessa máls.