132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

almannatryggingar.

792. mál
[02:42]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er eitt af mörgum málum sem við hefðum þurft að hafa betri tíma til að fara vel yfir. Þó að breytingarnar sem við erum að fjalla um, breytingar á almannatryggingalögum, séu ekki miklar eða flóknar þá flækir það málið að verið er að bregðast við reglugerð sem er mjög umdeild og erfitt fyrir fólk að átta sig á hvað á sér stoð í lögum og hvað á stoð í reglugerð.

Hæstv. forseti. Það er verið að endurskoða lög um heilbrigðisþjónustu og er það vel. Það hefur líka staðið til um langan tíma að endurskoða lög um almannatryggingar og það er orðið mjög brýnt. Ég tel að sú vinna sem farin er í gang um heildarendurskoðun hefði átt að halda áfram og þessar breytingar hefðu átt að falla inn í þá heildarendurskoðun, en þessar greinar eru teknar út til þess að bregðast við reglugerð sem var sett 1. apríl vegna uppsagna hjartalækna á samningum við Tryggingastofnun ríkisins eins og hér hefur komið fram.

Ég tel aftur á móti að ekki hefði þurft að bregðast sérstaklega við með breytingu á lögunum um almannatryggingar eins og fram kemur í umsögn Læknafélags Reykjavíkur, með leyfi forseta:

„Ef ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga nr. 117/1993 er skoðað virðist framlögð breytingartillaga óþörf. Í tilvitnuðu ákvæði er ráðherra falið vald með reglugerðarheimild til að ákveða hvort endurgreiða skuli vegna læknisheimsókna til sérfræðinga sem eru án samnings. Þessa heimild hefur ráðherra þegar nýtt sér þegar kemur að endurgreiðslu kostnaðar vegna tannlækninga, sbr. reglugerð nr. 576/2005 um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannlækningar.“

Ég tek undir þetta álit Læknafélags Reykjavíkur. Tannlæknar eru ekki á samningi. Þeir sögðu sig frá samningi við Tryggingastofnun ríkisins. Tryggingastofnun endurgreiðir samkvæmt ráðherragjaldskrá þeim sem eiga rétt á endurgreiðslu frá Tryggingastofnun samkvæmt reglugerð. Þetta er gert þrátt fyrir að tannlæknar séu ekki með fastan samning við Tryggingastofnun ríkisins. Ég tel því að sama lagastoð sé fyrir endurgreiðslu og þegar tannlæknar sögðu upp samningum. Ráðherra hefði getað endurgreitt sjúklingum rétt eins og þeim sem fara til tannlæknis.

Varðandi frumvarpið sjálft vil ég segja ég geri ekki athugasemdir við þær breytingar sem hér er verið að gera. Þær skýra betur hvað sjúkratrygging er og fyrir hverja. Með þeim er bættur réttur ungmenna og aldur þeirra sem eru sjúkratryggðir hækkaður, þ.e. barna til 18 ára aldurs. Heilsugæslan er tekin þarna inn í og breytingarnar í sjálfu sér ágætar en í raun óþarfar til að bregðast eingöngu við þessari reglugerð.

Varðandi reglugerðina vil ég segja nokkur orð, þótt hún sé í raun ekki til umræðu beinlínis, þá vil ég taka undir nefndarálit minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar. Þar er lýst agnúum í reglugerðinni. Eins tek ég undir ábendingar og athugasemdir í nefndaráliti meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar sem snúa að reglugerðinni sem slíkri. Þar eru margar aðvaranir á lofti og ábendingar um að þetta fyrirkomulag sé að mörgu leyti óheppilegt fyrir sjúklinga. Þar er talað um að reglugerðarákvæðin séu eingöngu tímabundin því að vonandi náist samningar við hjartalækna. Ég er hrædd um, hæstv. forseti, að brugðið geti til beggja vona með það og hugsanlegt sé að fleiri leiti í að segja upp samningum ef þeir telja að þetta komi ekki illa út fyrir hjartalækna, að segja sig frá samningum og tryggja sér áfram aðgang að sjúklingum með þeim hætti sem gert hefur verið.

Varðandi valfrjálst kerfi þá snýr það að sjúklingum sem geta valið að fara beint til hjartalæknis og greitt fullt gjald, sem er þá valfrjáls taxti, eða farið fyrst til heimilislæknis og fengið síðan endurgreitt. Það er valfrjálsa kerfið því að allir hjartalæknar eru án samnings. Valfrjálst kerfi hefur í hugum flestra verið á þá leið að hægt væri að velja á milli þess að fara til samningsbundins læknis eða þess sem ekki er samningsbundinn og í því fælist hið valfrjálsa kerfi. En þannig er það ekki. Ég tel að reglugerðin eins og hún er núna geti hugsanlega dregið úr hvata til samninga við lækna. Ég tel það ástand sem er núna alvarlegt, að þeir sérfræðingar sem eru samningslausir, eins og hjartalæknar, hafi ekki lengur upplýsingaskyldu um meðferð til heimilislækna og til Tryggingastofnunar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég vísa til athugasemda og ábendinga í nefndaráliti meiri hluta sem snýr að reglugerðinni. Ég vísa jafnframt til nefndarálits minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar, sem snýr líka að reglugerðinni. Reglugerðin er mjög umdeild. Þeir sem hafa komið að umsögn um frumvarpið sjálft mæla frekar með því, nema Læknafélag Reykjavíkur sem telur þessar breytingar óþarfar og ég tek undir það.