132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[02:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Fyrirvari minn við þetta mál lýtur fyrst og fremst að því að ekki vannst nægur tími til að vinna málið ofan í kjölinn í nefndinni. Ég dreg ekki í efa að hér séu ákveðnar leiðréttingar á ferð, þ.e. að verið sé að færa hluti að einhverju leyti til betri vegar, en ég verð að segja að út frá þeim umsögnum sem nefndinni hafa borist um þetta mál þá vannst ekki nægur tími til að skoða alla þá þætti þess sem ég hefði kosið.

Hins vegar er ljóst að það að tryggja að gögnin sem Landmælingar Íslands afla séu almannaeign og öllum aðgengileg endurgjaldslaust tel ég í sjálfu sér til mikilla bóta. Til marks um það hef ég m.a. umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands og fleiri aðilum sem að þessu máli hafa komið.

Mér finnst mikilvægt að Landmælingar Íslands fái byr í seglin með þá starfsemi sem þeim er ætlað að standa að. Eitt af því sem staðið hefur Landmælingum Íslands fyrir þrifum í gegnum tíðina, sérstaklega núna á seinni árum, hefur verið óheyrilega há sértekjukrafa frá stjórnvöldum sem sett hefur verið á stofnunina í fjárlögum. Stofnunin hefur auðvitað gripið til þess ráðs að selja öll þau gögn sem hún hefur yfir að ráða og ég hef sjálf lent í að ætla mér að fá landakort á vef Landmælinga en ekki fengið annað en tilboð um að kaupa kort.

Við verðum auðvitað að skoða málin í okkar ranni. Ég fagna því frumvarpi sem liggur fyrir þinginu um breytingu á upplýsingalögum og þótt það fari ekki í gegn á þessu þingi tel ég að sú stefnumörkun sé af hinu góða. Ég tel einnig að stigið sé ákveðið skref í þá átt með þessu frumvarpi.

Það er ljóst að gera hefði mátt fleiri breytingar á málinu en mælt er fyrir um í nefndaráliti umhverfisnefndar. Mér líst ekki vel á að unnið sé að svona málum í flaustri eða þeim hraða sem raun ber vitni. Ég óttast að í uppsiglingu geti verið mistök og flumbrugangurinn geti komið okkur í koll á næsta þingi. Við fáum það sjálfsagt í hausinn eins og unnið er núna og verðum vonandi manneskjur til að leiðrétta það sem upp á vantar til að Landmælingar Íslands geti staðið við sinn hlut við öflun grunngagna og geti stundað starf sitt í samvinnu við aðra sem vinna á sama sviði. Ég held að það að létta ákveðnum skyldum af stofnuninni sé af hinu góða en ég tek ekki undir þau orð formanns nefndarinnar sem féllu hér í ræðu áðan, að leggja beri stofnunina niður. Það geri ég ekki.

Ég tel að málið fari hér í gegn án nægilegrar skoðunar en við þetta búum við og verður víst svo að vera.