132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[03:28]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Í mínum huga hefur margt skýrst í umfjöllun þingsins frá því það kom fyrst fram. Ég hef verið sannfærður um að þótt þarna sé opnað á að Landhelgisgæslan geti stofnað hlutafélög um ýmsa starfsemi sína þá sé hugmyndin ekki sú að hlutafélaga- eða einkavæða löggæslu eða fela starfsmönnum einkaaðila ábyrgð á stjórnsýslu ríkisins. Hugmyndin er mun þrengri en það.

Það sem ég vil gagnrýna við þetta frumvarp er fyrst og fremst það sem snýr að kjaratengdum atriðum. Eins og kom fram í máli hv. formanns allsherjarnefndar, Bjarna Benediktssonar, er með frumvarpinu verið að aftengja kjör tiltekinna starfshópa kjörum eins og þau gerast á almennum vinnumarkaði. Fyrir því eru færð rök en fyrir mitt leyti hefði ég talið eðlilegt að reynt hefði verið að ná samkomulagi við tilheyrandi starfshópa og starfsstéttir um breytingar á þessu fyrirkomulagi.

Við erum að tala um starfshópa og stéttir sem ekki hafa verkfallsrétt og hafa þess vegna tengingu við aðra hópa. Ég er alls ekki að segja að það hljóti að teljast óumbreytanlegt fyrirkomulag. Aðeins hitt að eðlilegt væri að reyna að komast að samkomulagi við þessa aðila en ekki knýja fram breytingar einhliða með lögum eins og hér er lagt til.